Biðlistinn á líknardeild hefur lengst

Átta rúm eru á líknardeildinni í Kópavogi en níu voru …
Átta rúm eru á líknardeildinni í Kópavogi en níu voru á Landakoti og fjölgar ekki rúmum í Kópavogi fyrr en eftir endurbætur í vor. mbl.is/Sigurgeir

Biðlisti við líknardeildina í Kópavogi hefur lengst eftir að líknardeildinni á Landakoti var lokað 6. febrúar síðastliðinn vegna niðurskurðar og hún sameinuð líknardeildinni í Kópavogi. Níu rúm voru á Landakoti og átta eru í Kópavogi og fjölgar þeim ekki fyrr en gerðar hafa verið endurbætur á húsnæðinu í vor. Eins og staðan er nú hefur því plássum á líknardeild Landspítalans fækkað tímabundið um níu.

Fjögur pláss opnuð í apríl

„Við erum bara með átta einbýli og höfum ekki getað tekið á móti fleirum. Við reiknum með því að opna fjögur ný pláss um miðjan apríl eftir stækkunina,“ segir Dóra Halldórsdóttir, deildarstjóri líknardeildarinnar í Kópavogi.

Með sameiningunni verður rúmum á líknardeild raunar fækkað til frambúðar því einungis verða opnuð fjögur ný pláss eins og fyrr segir á líknardeildinni í Kópavogi eftir endurbætur og breytingar sem unnið er að á húsnæði deildarinnar.

Ríkið þarf þó ekki að bera neinn kostnað af breytingum og stækkun líknardeildarinnar í Kópavogi við sameininguna þar sem Oddfellowreglan á Íslandi hefur tekið að sér að framkvæma og kosta nauðsynlegar breytingar. Framlag Odddfellowa er stórt í sniðum og felst í sjálfboðavinnu og rausnarlegum fjárstuðningi. Fram hefur komið að áætlað er að kostnaður við breytingar á húsi líknardeildarinnar sem mun hýsa legudeild verði 51 milljón króna og kostnaður við hús þar sem verður dag- og göngudeild verði 50 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að öllum framkvæmdum verði lokið 1. október næstkomandi.

Oddfellowreglan hefur reglulega lagt líknardeildinni í Kópavogi lið. Hún hóf starfsemi árið 1999 fyrir tilstuðlan Oddfellowreglunnar sem hefur verið bakhjarl deildarinnar allar götur síðan.

Lokað fyrr en búist var við

„Líknardeildinni var lokað fyrr en búist var við en slíkt gerist oft þegar búið er að taka slíka ákvörðun því þá fer fólk að horfa í kringum sig og starfsfólki fækkar smátt og smátt,“ segir Dóra.

„Það eru fleiri á biðlista hjá okkur núna en voru fyrir mánuði. En það koma alltaf tímabil þar sem eru toppar á biðlistanum og á öðrum tímum eru fáir en núna hefur biðlistinn lengst sem er eðlilegt vegna skerðingarinnar á þessum plássum.“

Ástandið er slæmt á Landspítalanum um þessar mundir, ekki síst vegna árstíðabundinna sjúkdóma. Mjög margir sjúklingar liggja inni á deildum spítalans og mikið hefur verið um yfirinnlagnir á deildum. Þegar svo háttar til eru biðlistarnir yfirleitt lengri en ella hjá líknardeildinni í Kópavogi að sögn Dóru.

Gripið var til ráðstafana vegna yfirvofandi lokunar líknardeildarinnar á Landakoti og hætt að taka á móti sjúklingum vegna líknarþjónustu og eingöngu lagðir inn sjúklingar sem voru að bíða eftir að komast inn á hjúkrunarheimili. Eftir lokun deilarinnar fengu flestir þeirra legupláss á nýju hjúkrunardeildinni. Þar eru sjúklingar sem eru með tilbúið vistunarmat og bíða eftir að pláss losni á hjúkrunarheimili. Einn sjúklingur beið eftir að geta lagst inn á líknardeildina í Kópavogi og var fluttur þangað skömmu áður en deildinni á Landakoti var lokað.

Allt að 20 rúm í notkun

Við lokun líknardeildarinnar á Landakoti var þar opnuð ný hjúkrunardeild og er reiknað með að fljótlega verði þar komin í notkun 18 til 20 rúm.

Nokkrir þeirra sjúklinga sem voru á líknardeildinni sem var lokað voru fluttir yfir á hjúkrunardeildina. Hjúkrunardeildin er ætluð sjúklingum sem lokið hafa meðferð og endurhæfingu á Landspítalanum, eru með gilt vistunarmat og bíða varanlegrar vistunar á hjúkrunarheimili, samkvæmt upplýsingum Landspítalans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert