Var upplýstur um málið fyrir helgi

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, viðurkenndi á Alþingi í dag að hafa fundað með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins, Aðalsteini Leifssyni, í síðustu viku þar sem Aðalsteinn hefði gert honum grein fyrir því að mál Gunnars Þ. Andersen, forstjóra stofnunarinnar, væru í ákveðnu ferli.

Með þeim orðum var Steingrímur að svara fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins. Um helgina lét Steingrímur þess hins vegar getið í fjölmiðlum að hann hefði heyrt um málið í fjölmiðlum síðastliðinn föstudag.

„Varðandi seinni spurninguna þá er hið rétta í þeim efnum að ráðuneytinu, og þar á meðal mér, hefur verið gerð grein fyrir því ferli sem stjórn Fjármálaeftirlitsins hafði sett þessi mál í. Og það var meðal annars gert á fundi í síðustu viku,“ sagði Steingrímur í svari sínu og bætti síðar við: „Varðandi fréttaflutning af uppsögn þá sagðist ég ekki hafa vitað af því að uppsögn hefði farið fram fyrr en ég heyrði um slíkt fjallað í fjölmiðlum enda kom á daginn að það var ekki rétt. Forstjóra Fjármálaeftirlitsins hefur ekki verið sagt upp heldur hafi stjórnin rætt við hann um möguleg starfslok.“

Sagði ráðherrann á Alþingi að fundurinn hefði einungis verið í upplýsingaskyni og hafnaði því alfarið að hafa haft nokkuð með ákvörðunina að gera enda væri Fjármálaeftirlitið sjálfstæð stofnun.

„Þetta var upplýsingagjöf um það ferli sem málið hafði verið sett í og búið að vera í um nokkurn tíma af hálfu stjórnar Fjármálaeftirlitsins með því að afla álitsgerða frá lögmönnum og svo framvegis og það kom fram á þessum fundi að háð niðurstöðu þeirra álitsgerða yrði í framhaldinu rætt við forstjórann og reynt að leysa úr málinu í samræmi við það sem stjórnin teldi efni standa til á grundvelli niðurstöðu þeirra gagna sem hún hefði í höndum,“ sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert