Fulltrúum bænda í ESB-samráðshópi hafnað

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna.
Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna. mbl.is/Árni Sæberg

„Hvernig samræmist það að verið sé að hafa samráð við hagsmunasamtök og almenning?“ spyr Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands, en tveimur einstaklingum, sem samtökin tilnefndu í samráðshóp vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið, var að hennar sögn hafnað.

Fram kemur á heimasíðu utanríkisráðuneytisins að skipun hópsins sé í samræmi við álit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis sem fylgdi þingsályktunartillögunni um að sótt yrði um inngöngu í ESB „en í því er kveðið á um að aðkoma íslenskra hagsmunaaðila og félagasamtaka að ferlinu verði á sem breiðustum grunni.“

Erna segir að 15. nóvember hafi Bændasamtökunum borist tölvubréf frá formanni samráðshópsins, Salvöru Nordal, þar sem óskað hafi verið eftir því að samtökin tilnefndu tvo einstaklinga sem valið yrði úr í hópinn sem gert er ráð fyrir að tuttugu einstaklingar myndi.

„Það væri gott að þið nefnduð tvö nöfn sem við getum valið úr,“ segir meðal annars í bréfinu að sögn Ernu og síðar segir að með starfi samráðshópsins „verði tryggt að hagsmunaaðilar verði virkir þátttakendur í ferlinu frá upphafi og taki þátt í mótun á afstöðu Íslands á hverjum tíma.“

Vildu fá fólk úr grasrótinni

Erna segir að Bændasamtökin hafi með formlegum hætti tilnefnt á stjórnarfundi tvo einstaklinga sem fulltrúa í samráðshópinn, hana sjálfa og Sigurbjart Pálsson, bónda og stjórnarmann í samtökunum, en þau hafi haldið utan um Evrópumálin fyrir hönd Bændasamtakanna.

„Síðan förum við að grennslast fyrir um þessi mál eftir áramótin og þá kemur í ljós að þau ætla hvorugt nafnið að nota,“ segir Erna og spyr hvort það sé eitthvað annað en höfnun. Aðspurð um hvort skýringar hafi fengist á þessu segir hún að nefnt hafi verið eitthvað á þá leið að vilji væri fyrir því að fá fólk sem væri meira í grasrótinni og einhverja aðra en væru þegar í samningahópum.

Erna bendir á að Sigurbjartur sé bóndi og spyr hvernig hægt sé að komast að þeirri niðurstöðu að hann tilheyri ekki grasrótinni. Hún segir að Bændasamtökin viti síðan til þess að meðal annars hafi verið leitað beint til starfsmanna samtakanna með að taka sæti í samráðshópnum frá formanni hans.

„Þetta þykir okkur auðvitað alveg makalaus framkoma því það getur enginn talað fyrir hönd Bændasamtakanna en þeir sem þau tilnefna,“ segir Erna og bendir á að slíkir einstaklingar geti ekki talist fulltrúar hagsmunaaðila enda ekki með neitt umboð til þess. Þeir geti þannig í raun aðeins talað fyrir eigin hönd sem einstaklingar.

„Hvers vegna var verið að biðja um tilnefningar ef það á síðan ekkert að gera með þær?“ spyr Erna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert