Vanrækslugjald þjóni ekki tilgangi

Það getur verið kostnaðarsamt að fara eða fara ekki með …
Það getur verið kostnaðarsamt að fara eða fara ekki með bifreið sína í skoðun. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Greidd vanrækslugjöld námu um 360 milljónum króna í fyrra. 37.500 bifreiðareigendur voru rukkaðir um gjaldið, margir eiga ennþá eftir að greiða og óinnheimt vanrækslugjöld frá árinu 2009 nema um 250 milljónum króna. Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna.

Vanrækslugjald - gjald sem lagt er á sé bifreið ekki færð til skoðunar á tilsettum tíma - var tekið upp fyrir þremur árum. Á vef Neytendasamtakanna segir ennfremur að „ekki verði séð að vanrækslugjaldið hafi þjónað tilgangi sínum að þrýsta á eigendur bifreiða að koma með þær í skoðun á réttum tíma enda verði ekki séð að dregið hafi úr fjölda óskoðaðra bíla nema síður sé“.

Í greininni segir að mikilvægt sé fyrir umferðaröryggi að einungis séu í umferð bifreiðar sem hafi allan tilskilinn öryggisbúnað í lagi og ekkert sé að því að leitað sé allra leiða til að tryggja slíkt öryggi. Jafnframt er vitnað til orða í athugasemdum í greinargerð lagafrumvarps sem kvað á um vanrækslugjaldið:

„Skráð ökutæki hér á landi voru um síðustu áramót 258.009, þar af voru 25.128 óskoðuð eða tæplega 10% af heildarökutækjafjölda landsmanna. … Ætla má að hluti óskoðaðra ökutækja í umferðinni sé í lélegu ástandi og geti skapað hættu. … Þess er vænst að það fyrirkomulag um eftirfylgni með skoðun ökutækja sem mælt er fyrir um í grein þessari leiði til þess að flestir muni færa ökutæki sitt til skoðunar á tilsettum tíma og komist þannig hjá greiðslu gjaldsins, eða verði eftir atvikum við ábendingu innheimtuaðilans um að færa ökutæki til skoðunar og greiða lágmarksgjald vegna vanrækslunnar. ... Markmiðið er að aðgerðirnar dragi verulega úr vanrækslu þeirrar skyldu að færa ökutæki til skoðunar.

Í athugasemdunum kom einnig fram að þætti einhverjum gjaldið of hátt, væri „auðvelt að komast hjá því“. Á vef Neytendasamtakanna er hins vegar bent á að þetta sé ekki jafn-auðvelt og haldið hafi verið fram og aðalskoðun venjulegs fjölskyldubíls geti kostað á bilinu 7.945-9.460 kr. Séu ekki til peningar til að mæta þessum kostnaði leggist vanrækslugjald á sem nemi 15.000 kr. eða 7.500 kr. sé greitt innan mánaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert