„Vildi ná þessum gaur af sér“

Tómas, Axel og Kristján í héraðsdómi í morgun.
Tómas, Axel og Kristján í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Þrír menn sem ákærðir eru fyrir tilraun til manndráps viðurkenndu fyrir dómi í morgun verknaðinn, en neituðu þó sök samkvæmt ákæru. Þeir sögðu að ekki hefði staðið til að slasa nokkurn heldur aðeins hræða viðkomandi.

Mennirnir, Axel Már Smith, Kristján Halldór Jensson og Tómas Pálsson Eyþórsson, eru allir ákærðir fyrir tilraun til manndráps með því að hafa að kvöldi föstudagsins 18. nóvember 2011 farið saman á bifreið á bifreiðastæði við bifreiðasöluna Höfðahöllina að Tangarbryggju 14 í Reykjavík, þar sem þeir höfðu mælt sér mót við mann vegna ágreinings um fjárskuld.

Í ákæru segir að Kristján Halldór hafi skotið úr haglabyssu einu skoti í áttina að bíl mannsins, en ekki hæft. Þegar svo maðurinn ók á brott veittu mennirnir honum eftirför og skaut Kristján Halldór öðru skoti út um glugga bifreiðarinnar. Við skotið brotnaði afturrúða bíls fórnarlambsins og miklar skemmdir urðu á bifreiðinni.

Með þessari háttsemi eru mennirnir taldir hafa stofnað lífi og heilsu fórnarlambsins í augljósan háska.

Hækkaði skuld upp í hálfa milljón

Eftir skýrslutökur í morgun má vera ljóst að Tómas hafi viljað komast undan skuld sinni og sé það kveikjan að málinu. Tómas sagði fyrir dómi að hann hefði skuldað manninum 140 þusund krónur en sá hækkað skuldina fyrirvaralaust upp í hálfa milljón. „Hann sagði að ég skuldaði hálfa milljón og hefði tvo daga til að borga fyrstu greiðslu en viku til að klára. Síðustu orð hans voru „Tommi, þú ert fucked“. Ég lagðist í þunglyndi og var farinn að íhuga að hengja mig,“ sagði Tómas.

Í stað þess hringdi hann nokkur símtöl og fékk Kristján til að aðstoða sig. Þegar hann var spurður að því hvaða aðstoð það væri sagði Tómas: „Bara að hann kæmi með mér að hitta hann. [...] Eina sem ég vildi gera var að losna úr þessari flækju.“

Tómas neitaði alfarið að hafa vitað að Kristján myndi taka með sér skotvopn. Raunar hefði hann ekki áttað sig á að hann væri með byssu fyrr en hann hleypti af í annað skipti. Hann sagðist hafa verið í sömu fötum allan daginn og að það væri merki um að hann hefði ekki vitað af byssunni. „Ég hefði ekki farið á fundinn svona klæddur, á þessum stað ef ég héldi að það væri byssa í spilinu. Það hefði ekki komið til greina.“ Hann tiltók einnig að hann hefði hitt manninn áður á sama stað, um öruggan stað væri að ræða þar sem hann væri vaktaður og myndavélar þar.

Bifreiðin í hæfilegri fjarlægð

Verjandi Kristjáns spurði Tómas meðal annars út í það, hvers vegna hann hefði breytt framburði sínum á rannsóknarstigi og játað málið að mestu leyti. „Af hverju ætti ég að taka svona alvarlegan glæp á mig fyrir aðra? Þeir hefðu væntanlega ekki gert það sama fyrir mig,“ sagði Tómas og síðar að honum hefði verið lofað að hann þyrfti ekki afplána dóm sinn með Kristjáni og Axel.

Kristján skýrði sjálfur frá því að Tómas hefði gengið í manninn með hörku og ofbeldi. „Ég talaði um það væri hægt að gera þetta með því að hræða hann, þá myndi hann láta hann vera.“

Þá varð honum tíðrætt um að bifreið mannsins hefði verið í hæfilegri fjarlægð þegar hann hleypti af. „Tilgangur minn var að sleppa ofbeldi en hræða úr honum líftóruna,“ sagði Kristján sem átti að fá, að sögn Tómasar, helming skuldarinnar að launum. Hann sagði að Tómasi hefði verið fullkunnugt um skotvopnið og að hann hefði skipað honum að skjóta á bílinn og hitta hann í síðara skiptið sem hann hleypti af.

Þegar hann var spurður frekar út í þátt Tómasar sagði Kristján: „Hann var á því að taka alla ábyrgð á sig, og að hann væri tilbúinn að sitja í fangelsi fyrir þetta. Hann vildi bara ná þessum gaur af sér.“

Báðir voru þeir þó sammála, Tómas og Kristján, um að þáttur þriðja mannsins, Axels, hefði verið svo gott sem enginn. Hann hefði eflaust ekki vitað af byssunni og í engu haft sig í frammi. Rímaði það vel í framburð hans sjálfs, en hann sagðist hafa komið með að beiðni Kristjáns en í raun lítið vitað um málið. Þá þekkti hann Tómas ekki.

Aðalmeðferðin heldur áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert