Enginn ásetningur sannaður

Tómas, Kristján og Axel.
Tómas, Kristján og Axel. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Allir sakborningar í skotárásarmálinu gera þá kröfu að þeir verði sýknaðir af ákæru. Einn þeirra, sem viðurkennt hefur að hleypa af haglabyssu í tvígang, segir að frekar sé um hættubrot að ræða en tilraun til manndráps, enda sé enginn ásetningur um slíkt að ræða.

Önnur atburðarrás ef manndráp stæði til

Verjandi Kristjáns Halldórs Jenssonar, sem hleypti af haglabyssunni í málinu, sagði að líta verði til þess að Kristján hafði engan ásetning til að bana þeim mönnum sem í bifreiðinni sátu umrætt skipti. „Hann hefur játað að skjóta skotunum. Í fyrra skiptið skaut hann vísvitandi yfir bifreiðina og í annað skiptið skaut hann vísvitandi aftan á bifreið brotaþola.“ Hann bætti við að atburðarrásin hefði verið allt önnur ef til hefði staðið að bana mönnunum.

Þá sagði hann að Kristján hefði aðeins verið þátttakandi í atburðarrás sem Tómas Pálsson Eyþórsson, sem einnig er ákærður, skipulagði. Til hafi staðið að hræða umræddan mann, hræða úr honum líftóruna eins og það var nefnt, til að hann léti af fjárkúgunum á hendur Tómasi.

Einnig benti verjandinn á að ágallar væru á rannsókn málsins. Ekki hafi verið rannsakað hvort umrædd árás hefði getað valdið líkamstjóni, eða dauða. Það verði að teljast ágalli, enda sé ákært fyrir tilraun til manndráps. Hann sagði ljóst að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna ásetning um manndráp, og því bæri að sýkna hann af ákærunni.

„Outlaws eða ekki Outlaws, Keflavík eða KR“

Til vara er Kristján – og allir sakborningar – ákærður fyrir hættubrot. Verjandi Kristjáns sagði ljóst að hann hefði viðurkennt að hafa skotið, og að hætta hefði getað skapast af verknaðinum „þó svo hann hafi verið með hættulítið skotvopn í fórum sínum.“ Hann sagði að Kristján yrði í versta falli sakfelldur fyrir hættubrot. Sú grein hljóðar svo: „Fangelsi allt að 4 árum skal sá sæta, sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska.“

Þetta sagði verjandinn að væri orðalag sem nánast væri sniðið að máli þessu. Ekki kæmi til greina að sakfella fyrir annað en þetta ákvæði og að Kristján ætti ekki að fá þyngri dóm en tvö og hálft ár.

Að endingu nefndi hann að málið hefði farið hátt í fjölmiðlum og í umfjöllun fjölmiðla greint frá að um hafi verið að ræða skipulagða árás glæpasamtaka. Hins vegar hafi ekkert komið fram sem bendi til þess í málinu. Þó er ljóst að Kristján er félagi í vélhjólasamtökunum Outlaws, sem lögregla hefur skilgreint sem glæpasamtök. „Outlaws eða ekki Outlaws, Keflavík eða KR. Ákvörðun refsingar getur ekki verið ákvörðuð út frá einhverjum félagaskap.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert