Bragi vann franskan stórmeistara

Bragi Þorfinnsson í upphafi skákarinnar í dag.
Bragi Þorfinnsson í upphafi skákarinnar í dag.

Bragi Þorfinnsson vann franska stórmeistarann Sebastian Maze sannfærandi í 4. umferð N1 Reykjavíkurmótsins sem fram fór í dag í Hörpu. Bragi er nú efstur Íslendinga með 3,5 vinninga en alls hafa 6 skákmenn sigraði í öllum sínum skákum.

Fabiano Caruana, stigahæsti keppandi mótsins, sigraði hollenska stórmeistarann Erwin L'ami. Caruana er efstur ásamt David Navara, Alexander Ipatov, Ivan Cheparinov, Ivan Sokolov, Robert Hess og Gawain Jones. Fjórir skákmenn hafa 3,5 vinning og Bragi þar á meðal.

Með þrjá vinninga hafa Íslendingarnir: Hannes Hlífar Stefánsson, Þröstur Þórhallsson, Stefán Kristjánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Héðinn Steingrímsson, Henrik Danielsen, Guðmundur Kjartansson, Róbert Lagerman, Björn Þorfinnsson og Þorvarður F. Ólafsson. Heimsmeistari kvenna, Hou Yifan, gerði jafntefli annan dag í röð og hefur 3 vinninga.

Hilmir Freyr Heimisson Margir Íslendinganna náðu góðum úrslitum í 4. umferðum. Dagur Ragnarsson, einn af mönnum mótsins, 15 ára piltur úr Rimaskóla, gerði jafntefli við FIDE-meistarann Johan Henriksson, Elsa María Kristínardóttir, Íslandsmeistari kvenna, lagði Erlend Mikaelsen og ungu skákmennirnir Felix Steinþórsson, Mikael Jóhann Karlsson og Andri Freyr Björgvinsson unnu mun stigahærri andstæðinga. Einar Hjalti Jensson gerði jafntefli við bandarísku skákdrottninguna Irina Krush. Hilmir Freyr Heimisson, 10 ára, gerði jafntefli við mun stigahærri andstæðing.

Tímaritið Skák kom út í dag eftir langt hlé og geta áhugasamir nálgast það á skákstað um helgina.

Fimmta umferð fer fram á morgun og hefst kl. 15. Þá hefjast skákskýringar í umsjón Helga Ólafssonar kl. 17:30.

Í 5. umferð mætast m.a.:

Jones - Caruana
Navara - Sokolov
Cheparinov - Hess
Bragi - Coleman
Björn - Kryvoruchko
Hou Yifan - Bartholomew
Héðinn - Kore
Guðmundur - Hannes

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert