Treystir á nýja ríkisstjórn

Helgi Magnússon fráfarandi formaður Samtaka iðnaðarins
Helgi Magnússon fráfarandi formaður Samtaka iðnaðarins mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Við verðum að bíða enn um sinn og treysta á að hér komi til valda ríkisstjórn sem vill vinna með atvinnulífinu og fólkinu í landinu að öflugri uppbyggingu og kraftmikilli athafnastefnu,“ sagði Helgi Magnússon, fráfarandi formaður Samtaka iðnaðarins í ræðu sinni á Iðnþingi sem nú stendur yfir.

„ Við hljótum að geta átt von á slíkri ríkisstjórn eftir næstu kosningar því núverandi stefna ætti senn að þykja fullreynd,“ sagði Helgi.

Helgi nefndi atriði sem þyrfti að fara í til að ná hröðum efnahagsbata í landinu. Hann sagði að ná þyrfti „skjótri sátt um sjávarútvegsstefnu til framtíðar þannig að sjávarútvegurinn geti farið af krafti í fjárfestingar og uppbyggingu á grundvelli framtíðarstefnumörkunar“ og stöðugleika.

Helgi sagði að fara þyrfti „af stórauknum krafti í fjárfestingar og uppbyggingu í þeim grunnatvinnuvegi sem orku- og stóriðjugreinin er.“ Hann sagði að hefjast þyrfti „handa við virkjanir í neðri hluta Þjórsár og hraða nýtingu annarra kosta sem hagkvæmir eru.“

Hann sagði að skipuleggja þyrfti orkunýtingu og fjárfestingar þannig að stóriðja þurfi ekki að skyggja á aðra iðnaðarkosti. Helgi sagði: „Við leggjum áherslu á að greiða leið allra vænlegra kosta – stórra og smárra - en fyrst og fremst að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur síðustu árin þar sem erfitt hefur verið að hrinda vænlegum fjárfestingum í framkvæmd vegna margvíslegrar tregðu stjórnvalda og stofnana.“

Helgi nefndi nauðsyn þess að hrinda í framkvæmt metnaðarfullri áætlun um samgönguframkvæmdir víðsvegar um land og nefndi hugmyndir Kristjáns Möller, fyrrverandi samgönguráðherra í þessu samhengi.

„Ef niðursveifla er ekki rétti tíminn til að fara í varanlegar samgönguframkvæmdir sem nýtast til langrar framtíðar – með langtímafjármögnun lífeyrissjóða – hvenær er þá rétti tíminn til að endurbæta samgöngukerfið og auka öryggi landsmanna í umferðinni?“

Öflug hagvaxtarstefna og lækkun skatta

Þá sagði Helgi nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd öflugri hagvaxtarstefnu til að „stórauka kaupmátt í landinu, minnka atvinnuleysi, bæta afkomu fyrirtækja og þar með að auka skatttekjur ríkis og sveitarfélaga af meiri tekjum og auknum umsvifum í þjóðfélaginu.“

„Samhliða því ætti að hefja lækkun skatta á fólk og fyrirtæki og gefa sér ekki meira en 2 ár til að afnema sem flestar af rúmlega 100 skattahækkunum vinstri stjórnarinnar. Sú umsvifaaukning og verðmætasköpun sem þetta leiddi af sér yrði til að bæta fjárhag ríkissjóðs andstætt því sem nú er haldið fram. Hækkaðar skattprósentur skila sér ekki í opinberri tekjuöflun í samræmi við væntingar eins og margsannað er. En almenn tekjuaukning í þjóðfélaginu gerir það ríkulega,“ sagði Helgi.

Helgi sagði einnig: „Það er hægt að snúa íslensku samfélagi til aukinnar hagsældar á skömmum tíma. Þetta er einungis spurning um grundvallarstefnur – grundvallarpólitík. Verði kröftug vaxtarstefna ofan á þá mun Atvinnumálanefnd Alþingis ekki vera verkefnalaus eins og nú er. Atvinnulaus Atvinnumálanefnd Alþingis segir meira en mörg orð um þann viljaskort gagnvart atvinnuuppbyggingu sem við er að fást!“

Ræðu Helga Magnússonar má finna í heild sinni hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert