Vilja svar um lán til Kaupþings

Þingmenn vilja að rannsakað verði til hlítar hvernig staðið var að láni Seðlabankans til Kaupþings upp á 500 milljónir evra nokkrum klukkustundum áður en neyðarlögin voru sett. Í Seðlabankanum er til upptaka af símtali þáverandi formanns bankastjórnar og forsætisráðherra um málið. Þetta kom fram í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.

Fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis héldu fundi í morgun þar sem meðal annars var fjallað um lán sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi þann 6. október 2008 uppá 500 milljónir evra eða um 85 milljarða íslenskra króna gegn veði í danska FIH bankanum.

Þetta var sama dag og Alþingi samþykkti neyðarlögin. Í svari sem Helgi Hjörvar, formaður efnahagsnefndar Alþingis fékk frá Seðlabankanum í gær kemur fram að öll meðferð málsins og ákvarðanataka hafi verið hjá æðstu stjórn bankans. Og í Seðlabankanum er til upptaka af símtali þáverandi  formanns bankastjórnarinnar Davíðs Oddssonar og þáverandi forsætisráðherra Geirs Haarde. 

„Nú lítur út fyrir að nokkur hluti þess máls muni vart endurheimtast, þvert gegn því sem þá var sagt. Það gefur Alþingi tilefni til þess að kanna vel hvernig að þessu var staðið,“ sagði Helgi Hjörvar. Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri-grænna, var á sömu skoðun. „Mér finnst það fullt tilefni til að ræða það frekar þegar seðlabankastjóri Íslands lánar 85 milljarða króna í fallinn banka án þess að um það sé gerður samningur, án þess að um það sé tekin ákvörðun í stjórn bankans.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki telja að þarna yrði að láta staðar numið. „Við erum til í að rannsaka alla þessa hluti. Við skulum líka rannsaka hvernig var staðið að undirritun Icesave-samninganna hér upphaflegu. Menn nefna hér háar tölur. Við skulum þá bara hafa það með í rannsóknunum. En hversu lengi ætla menn að vera þarna og hversu langan tíma á að taka að leiða þessa þjóð inn í nýja framtíð,“ hefur RÚV eftir Bjarna í ræðustól Alþingis í dag.

Sjá blogg Björns Vals um málið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert