Kjósendur geti farið fram á þingrof

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að hann teldi mun betra að ákveðinn fjöldi kjósenda gæti farið fram á þingrof frekar en að geta krafist þess að ákveðin mál færu í þjóðaratkvæði. Önnur umræða fer fram í dag um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæði í sumar, samhliða forsetakosningum, um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Pétur sagðist þó hlynntur því að ákveðinn fjöldi kjósenda gæti krafist þjóðaratkvæðis um mál, þó það mætti ekki vera þrisvar í viku, en taldi mun sterkara og lýðræðislegra að hægt yrði að krefjast þingrofs. Hann sagði að eðlilega þyrfti þó að vera eðlilegar kröfur um fjölda kjósenda til þess að hægt væri að fara fram á þingrof.

Þá sagðist Pétur hlynntur breytingartillögu Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, að einnig yrði kosið samhliða forsetakosningum um það hvort halda ætti áfram umsókn um inngöngu í Evrópusambandið.

Í ræðu sinn fór Pétur yfir þingsályktunartillöguna og breytingatillögur við hana og lýsti skoðun sinni á því efni. Í lok ræðunnar sagði Pétur að nú væri tími hans á þrotum og hann yrði þá að óska eftir orðinu aftur síðar í umræðunni þar sem hann ætti enn eftir að fara yfir mikið efni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert