Hækka gjaldið og þrengja að útveginum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag hvernig ríkisstjórnin hefði staðið að breytingum á lögum um stjórnkerfi fiskveiða. Hann sagði aðspurður að til greina kæmi að hækka veiðigjald á sjávarútveginn, en þá gengi ekki að vera á sama tíma að gera breytingar sem drægju úr hagkvæmni veiðanna.

Kristján Möller, formaður atvinnuveganefndar, sem kemur til með að fjalla um frumvarpið að lokinni fyrstu umræðu, sagði að hagfræðingar sem skoðað hefðu frumvarpið kæmust að talsvert ólíkri niðurstöðu um hvað hagnaður sjávarútvegsins væri mikill. Það væri því mikilvægt fyrir nefndina að komast að niðurstöðu um þetta atriði þannig að menn hefðu traustan grunn að byggja á í umræðum um hvert veiðigjaldið ætti að vera.

Bjarni gagnrýndi harðlega undirbúning ríkisstjórnarinnar. Búið væri að halda sjávarútveginum í óvissu allt þetta kjörtímabil. Þetta hefði haft áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna sem ekki hefðu treyst sér til að ráðast í miklar fjárfestingar þegar þau vissu ekki hvað væri framundan.

Kristján spurði Bjarna hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri tilbúinn að standa að breytingum á lögum sem miðuðu að því að hækka veiðigjaldið líkt og sáttanefndin sem Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í lagði til.

Bjarni sagði að hægt væri að hækka veiðigjaldið en þá mætti ekki á sama tíma vera að gera breytingar á umgjörð greinarinnar sem leiddu til þess að hagkvæmni veiðanna minnkaði. Verið væri að skerða þá sem hefðu sótt fram og keypt til sín aflaheimildir á sama tíma og þeim væri ætlað að borga stærstan hluta af veiðigjaldinu.

Bjarni sagði að í sáttanefndinni hefði Sjálfstæðisflokkurinn lagt til að þeir pottar eða flokkar sem tengjast byggðum eða strandveiðum yrðu fastsettir sem hlutfall af heildaraflahlutdeild. Ríkisstjórnin vildi stækka þessa potta og halda því opnu til framtíðar hversu stórir þeir yrðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert