„Hlýtur að vera misskilningur“

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar

Ritari forseta Íslands segir engar breytingar hafa verið gerðar á aðgengi fólks að Bessastaðanesi og að fullyrðingar um slíkt hljóti að vera byggðar á misskilningi. Bæjarstjórn Álftaness hefur sent skrifstofu forseta Íslands erindi, þar sem mælt er með því að aðgengi að Bessastaðanesi verði ekki hamlað.

Í erindinu segir að svæðinu hafi verið læst nýverið án skýringa.

„Engar breytingar hafa verið gerðar á för fólks um Bessastaðanesið eða aðgengi að því fyrir utan þær að öðru hliðinu, því sem er nær Bessastöðum, var lokað til að takmarka för hestamanna,“ segir Örnólfur Thorsson forsetaritari. 

„Með því að hestamenn fari um akveginn getur skapast margvísleg hætta og það er ástæða þessa,“ segir Örnólfur. Hann segir að skrifstofu forseta Íslands hafi ekki borist neitt erindi sem varðar þetta.

Hann segir að forsetinn hafi farið í sína vanalegu morgungöngu í morgun og hitt þar fyrir nokkurn fjölda fólks. „Enda var annað hliðið galopið og meðal þeirra sem hann hitti var bæjarfulltrúi á Álftanesi, sem var þar eins og hann að fylgjast með fuglalífinu. Það eru engar takmarkanir þarna og það er greið leið á Skansinn. Þetta hlýtur að vera misskilningur,“ segir Örnólfur.

Frétt mbl.is: Lokað og læst við Bessastaði

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert