Furðuleg viðbrögð stjórnmálamanna

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG, segir að viðbrögð sumra stjórnmálamanna við kröfu framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins um aðkomu að dómsmáli vegna Icesave furðuleg.

Á bloggvef sínum skrifar Björn Valur að ef litið er til nýliðinnar sögu og þarf ekki að fara langt aftur í tímann til þess kemur í ljós hve miklir hræsnarar þeir stjórnmálamenn eru sem hér um ræðir.

Þann 16. nóvember 2008 gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við Evrópusambandið um aðkomu sambandsins að deilunni fyrir hönd Hollendinga og Breta. Í því fólst m.a. að íslensk stjórnvöld myndu ábyrgjast lágmarkstryggingu á innstæðum í útibúum íslenskra banka erlendis, viðurkenning á samkomulagsaðila á því að tilskipun um innstæðutryggingar hefðu verið felld inn í löggjöfina um EES og gildi því á Íslandi og að ESB myndi áfram taka þátt í viðræðum um lausn Icesave-deilunnar og það mál unnið í samræði við bandalagið.

„Sem sagt: Íslenskir stjórnmálamenn þess tíma viðurkenndu ábyrgð Íslands vegna Icesave málsins og óskuðu eftir ríkari aðkomu ESB að málinu.
Forsætisráðherra á þessum tíma var Geir H Haarde, sá sami og nú bíður dóms vegna aðkomu sinnar að hruninu.

Fjármálaráðherra á þessum tíma var Árni M. Mathiesen. Utanríkisráðherra á þessum tíma var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og formaður utanríkismálanefndar, sem leiddi málið áfram á Alþingi, var Bjarni Benediktsson, núverandi formaður sjálfstæðisflokksins.

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins var því leitað til ESB eftir aðkomu að Icesave-málinu, málinu sem er skilgetið afkvæmi flokksins. Nú hneykslast sjálfstæðismenn hinsvegar yfir því að þeim hefur orðið að óskum sínum, bæði varðandi það að koma Icesave-málinu í dóm og ESB sé orðin beinn aðili að því og láta að því liggja að við núverandi stjórnvöld sé að sakast í þeim efnum.

Þeir áttu að skammast sín þá og þeir ættu að skammast sín núna,“ skrifar Björn Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert