Sjö kvíslir vinstrimanna

Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson Ragnar Axelsson

Íslenskir vinstrimenn skiptast nú í sjö til átta kvíslir og hafa aldrei verið jafn sundraðir í lýðveldissögunni. Þetta er greining Styrmis Gunnarssonar, fv. ritstjóra Morgunblaðsins, sem rökstyður mál sitt með sögulegum samanburði.

Að sögn Styrmis skiptast íslenskir vinstrimenn í Vinstri græna, Samfylkingu, Samstöðu, Bjarta framtíð og að einhverju leyti í Dögun. Þar af sé VG þríklofinn þar sem Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir myndi klofningsbrot, Jón Bjarnason sé einn á báti og loks komi meginkvíslin sem Steingrímur J. Sigfússon fari fyrir.

Inn í þessa greiningu vantar flokksbrot þau innan Samfylkingar sem tókust á á örlagafundi í ársbyrjun og Árni Páll Árnason límdi saman með frægri ræðu. Skrifaði Styrmir um þau átök í Sunnudagsmogganum.

Þá má halda því fram að framsókn sé vinstri flokkur og nægir að vitna til þeirra orða Guðna Ágústssonar, fv. formanns flokksins, að hjartað í honum sé „vinstra megin“.

Samkvæmt því skipast íslenskir vinstrimenn minnst í níu kvíslir og er ekki útilokað að sú tíunda bætist við með nýju framboði fyrir næstu kosningar.

Styrmir skrifar á vef sinn Evrópuvaktina:

„Staðreynd er hins vegar að glundroðinn í röðum vinstri manna hefur ekki verið meiri frá því að nútíma stjórnmál urðu til á Íslandi fyrir svo sem 80-90 árum. Þetta er þeim mun athyglisverðara vegna þess, að ætla mátti að lok kalda stríðsins yrðu til þess að auðvelda sameiningu vinstri manna í einum flokki. Það mistókst, þegar Samfylkingin og VG urðu til fyrir rúmum áratug en virðist nú vera komið gersamlega úr böndum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert