Einblína á afnám refsistefnu

Úr myndasyrpunni sem birt var á afþreyingarvefnum 9gag, en myndirnar …
Úr myndasyrpunni sem birt var á afþreyingarvefnum 9gag, en myndirnar voru teknar á Austurvelli á föstudag. Ljósmynd/9gag

Kannabismenning á Íslandi er að breytast og hefur breyst mikið á fáeinum árum. Ræktun maríjúana kom í stað innflutnings á hassi og með því breyttist neyslan. Öðru hvoru skjóta upp kollinum hópar sem vilja heimila kannabisneyslu og nú síðast Rvk Homegrown sem ætlar að láta til sín taka á næstunni.

Undanfarna daga hafa birst á mbl.is fréttir af viðburði sem haldinn var á Austurvelli síðastliðinn föstudag. Þar var fólk hvatt til að reykja kannabisefni opinberlega til að mótmæla stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Annars vegar hefur verið greint frá því að lögregla vissi af viðburðinum en aðhafðist ekki og hins vegar að fulltrúar forvarnarsamtaka væru undrandi á aðgerðarleysi lögreglu.

Burtséð frá þeim þætti málsins er ljóst að töluverður fjöldi fólks mætti til að taka þátt í mótmælunum, sem voru í nafni Rvk Homegrown. „Tilgangurinn með þessum gjörningi var að vekja athygli á gagnsleysi refsistefnunnar í vímuefnamálum og þeim skaða sem hún veldur samfélaginu og einstaklingum,“ segir Örvar Geir Geirsson sem hafði veg og vanda af skipulagningu viðburðarins.

Verkefnið Rvk Homegrown hófst árið 2010 og er í dag hópur en unnið er að því að þessa daganna að skrá hópinn sem formleg samtök. Övar segir að aðeins eigi eftir að ganga frá formsatriðum þess vegna. Hann er ánægður með viðbrögð lögreglunnar við mótmælunum. „Þetta var allt gert í góðu samtarfi við lögregluna og þeir látnir vita hvað myndi þarna fara fram. Enda erum við að berjast fyrir að vera löggilt samtök og viljum fara réttu leiðina að því.“

Ungmenni hafa ekkert með vímuefni að gera

Örvar segir að viðbrögðin við viðburðinum hafi verið góð. Þetta hafi verið í annað skipti sem mótmælt var á þessum degi, 20. apríl, og mun fleiri hafi mætt í ár en í fyrra. „En þó svo við hvöttum fólk til að reykja opinberlega var það aðeins í mótmælaskyni. Við hvetjum fólk ekki almennt til þess.“

Í frétt mbl.is kom fram að fulltrúar forvarnarsamtakanna hefðu áhyggjur af því að viðburður sem þessi hefði áhrif í baráttunni gegn vímuefnaneyslu ungmenna. Örvar tekur skýrt fram að samtökin styðji ekki vímuefnaneyslu ungmenna. „Við teljum ekki að neysla ungmenna á kannabis sé við hæfi frekar en á öðrum vímugjöfum. Við þekkjum að alveg að ungmenni hafa ekkert við kannabisefni að gera. Einmitt þess vegna viljum við að sett verði á þau aldurstakmark og sala verði undir eftirliti.“

Hann segir það vel þekkta staðreynd að ungt fólk eigi auðveldara með að kaupa sér kannabisefni en áfengi. „Og þessi þróun er bein afleiðing af refsistefnu stjórnvalda.“

Skaðaminnkun í vímuvarnarvörnum verði viðurkennd

Málstaður Rvk Homegrown er á þá leið að kominn sé tími á heildarendurskoðun á stefnumótun og lagasetningu í vímuefnamálum á Íslandi. Byggja þurfi stefnu á félagsfræðilegum og vísindalegum rökum í stað hræðsluáróðurs. Nota eigi fjármuni lögreglunnar í eitthvað skynsamlegra en að eltast við smávægileg vímuefnabrot. Á móti eigi að fá skaðaminnkun í vímuefnavörnum viðurkennda sem aðferð til að bregðast við vandanum.

Þá eigi að kljúfa vímuefnamarkaðinn á Íslandi og aðgreina vímuefni í væg og hörð, og láta af refsingum fyrir neysluskammta.

En er mikill meðbyr með þessum málstað á Íslandi?

„Það fer kannski eftir því hvernig á þetta er litið. Margir eru alfarið á móti kannabisefnum og það er bara gott og blessað. Þetta er náttúrlega vímuefni. En við finnum frekar fyrir meðbyr þegar við ræðum um gagnsleysi refsistefnunnar og þann skaða sem hún veldur. Við höfum reynt að einblína á það á afnám refsistefnu gagnvart neytendum, enda er fólki frjálst að velja og hafna hvaða vímuefni það telur sér við hæfi,“ segir Örvar.

Samtökin verða áberandi í sumar

Spurður að því hvernig hópurinn ætli sér að ná eyrum ráðamanna segir Örvar að meðal annars hafi verið sendir fjöldapóstar á þingmenn, bæði íslenskar ritgerðir um málefnið og rannsóknir. Þá sé hópurinn í samskiptum við nokkra þingmenn. „Við höfum reynt að vekja athygli á málstaðnum og munum krefja frambjóðendur um svör fyrir næstu kosningar um afstöðu þeirra til þessara mála, þannig að hægt sé að sjá hverjir eru opnari fyrir þessum málum en aðrir.“

Eins og áður segir verður hópurinn að samtökum á næstu dögum eða vikum. En hvaða starfsemi verður í samtökunum?

„Við verðum með viðburði, tónleikahald og uppákomur til að vekja athygli á málstað okkar. Samtökin verða án félagsgjalda en starfsemin fjármögnuð með sölu varnings ýmiskonar sem einnig nýtist málstað okkar til góðs. Við verðum áberandi næstu árin og núna í sumar ætlum við að láta taka eftir okkur.“

Kannabisplantan ræktuð í stórum stíl í einbýlishúsi í Hafnarfirði fyrir …
Kannabisplantan ræktuð í stórum stíl í einbýlishúsi í Hafnarfirði fyrir fáeinum árum. Morgunblaðið/Júlíus
Kannabisvindlingar á kaffihúsi í Amsterdam.
Kannabisvindlingar á kaffihúsi í Amsterdam. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert