„Ekki vönduð stjórnsýsla“

Kópavogur.
Kópavogur. mbl.is/Ómar

„Þetta er ekki góð og vönduð stjórnsýsla og svona viljum við ekki vinna,“ segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, í samtali við mbl.is um sérkjör sem Guðrún Pálsdóttir fékk við lóðakaup þegar hún var fjármálastjóri bæjarins fyrir um 15 árum.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu í dag. Þar kom fram að Guðrún hafi ekki þurft að greiða vexti af gatnagerðargjöldum sem námu 1,1 milljón kr. og þá fékk hún hagstæðari vaxtakjör en aðrir vegna kaupa á einbýlishúsalóð. Hún greiddi 6% vexti á meðan aðrir urðu að greiða 6,75%- 6,85% vexti af sínum skuldabréfum vegna lóðakaupa í Kópavogi. Skuldabréfin eru dagsett 27. desember 1996.

Guðríður segir að allir eigi að sitja við sama borð.

„Það er mjög óheppilegt að þetta mál skuli koma upp í tengslum við starfsmann sem á þeim tíma er orðinn bæjarstjóri. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn séu ekki að fella neina dóma heldur skoði málið af yfirvegun. Þetta mál var til skoðunar hjá okkur,“ segir Guðríður.

Það geti vel verið að um mistök hafi verið að ræða og þá sé ekki útilokað að Guðrún hafi fengið þessa heimild frá sínum yfirmönnum. „Þá þarf bara að skoða málið þannig að það liggi fyrir öll gögn í málinu,“ segir Guðríður og bendir á að málið sé í sjálfu sér fyrnt.

„Þetta er mál til að læra af og þetta kannski opnaði svolítið augu okkar gagnvart því hvort að vinnubrögðin hafi virkilega verið með þessum hætti á þessum tíma. Þetta gæti bara verið einhverjar geðþóttaákvarðanir um einhverjar niðurfellingu vaxta án þess að það hafi verið lagt fyrir bæjarráð.“

Málið kom upp fyrir tilviljun

Guðríður segir að málið hafi komið upp fyrir tilviljun „Þetta kom upp í tengslum við það að peningaskápur bæjarins var opnaður í fyrra,“ segir hún, en endurskoðunarfyrirtækið Deloitte var fengið til að taka út þau gögn sem voru í skápnum. Þar var m.a. að finna fjögur skuldabréf vegna kaupa Guðrúnar og eiginmanns hennar vegna lóðakaupa. Þegar málið kom upp var Guðríður formaður bæjarráðs og Samfylkingin, VG, Y-listi Kópavogsbúa og Næst besti flokkurinn við völd.

Guðríður segir að ýmislegt hafi komið í ljós sem hafi kallað á nánari skoðun. „Eins og Guðrún hefur bent á, þá í mörgum tilfellum hafa vextir verið felldir niður á gatnagerðargjöldum ef dráttur hefur verið deiliskipulagi. En slíkar ákvarðanir á auðvitað að taka í bæjarráði. Það er auðvitað bara bæjarráð sem hefur þær heimildir til að taka slíkar ákvarðanir.“

Guðríður segir að málið hafi verið í vinnslu þegar meirihlutinn féll í janúar í tengslum við uppsögn bæjarstjóra. „Það stóð til að vinna stjórnsýsluúttekt, þar sem rekstur og stjórnsýslan yrði tekin út hjá bænum. M.a. vinnubrögð í tengslum við fjölmargar ákvarðarnir, þá sérstaklega lóðaúthlutanir og ákvarðanir um vaxtakjör og greiðslukjör.“

Þáverandi meirihluti gat ekki stutt Guðrúnu í stóli bæjarstjóra en að sögn Guðríðar er mikilvægt að trúverðugleiki bæjarstjóra sé ekki skertur. Það hafi verið óheppilegt að hún hafi verið bæjarstjóri á sama tíma og málið var til skoðunar. Meirihlutinn féll hins vegar í janúar og nýr meirihluti Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Y-lista Kópavogsbúa tók við stjórnartaumunum í febrúar.

Haldið verði áfram með stjórnsýsluúttektina

Guðríður segir að það geti vel verið að á umræddum tíma hafi þau vinnubrögð tíðkast að starfsmenn hafi fengið munnlegt samþykki næsta yfirmanns til að fá einhverjar ívilnanir. „Við teljum það ekki góða stjórnsýslu. Allar svona ákvarðanir þarf að taka í bæjarráði þannig að það liggi fyrir nákvæmlega hvers vegna, hversu mikið og hver það er, svo það sé gegnsæi á öllu slíku. Og það stóð til að skoða þetta hjá fleiri aðilum,“ segir hún.

Aðspurð segist hún ekki hafa upplýsingar um að fleiri hafi notið slíkra sérkjara. Guðríður tekur fram að ítarleg úttekt á málinu hafi ekki farið fram. En lausleg könnun hafi hins vegar ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós í öðrum málum.

Hún vill aftur á móti ljúka því að skoða þetta mál ofan í kjölinn og skoða þessi mál í stærra samhengi. „Þangað til að þetta mál er fullkannað þá ætla ég ekki að fella neina dóma.“ Guðríður vonast til að nýi meirihlutinn muni halda áfram með fyrirhugaða stjórnsýsluúttekt.

Guðríður Arnardóttir.
Guðríður Arnardóttir.
Guðrún Pálsdóttir.
Guðrún Pálsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert