Allt að 100 þúsund farþegar

Skemmtiferðaskipið Costa Pacifica við skarfabryggju
Skemmtiferðaskipið Costa Pacifica við skarfabryggju Ernir Eyjólfsson

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins leggst að bryggju við Skarfabakka í Reykjavík 17. maí næstkomandi, á uppstigningardegi, klukkan níu á morgni og fer kl. 22 um kvöldið. Þar er á ferð Crystal Serenity, sem er í heimsreisu og kemur hingað frá St. John's í Kanada. Sjaldgæft er að skemmtiferðaskipin komi hingað úr vesturátt en yfirleitt koma þau frá meginlandi Evrópu.

Í kjölfarið munu hátt í 60 skip koma til borgarinnar til hausts í alls 80 boðuðum skipakomum. Skipin munu sem fyrr koma á fleiri hafnir um landið, eins og til Grundarfjarðar, Ísafjarðar, Akureyrar, Seyðisfjarðar, Djúpavogs og Vestmannaeyja. Síðasta skipakoman til Reykjavíkur er 29. september nk.

Að sögn Ágústs Ágústssonar, markaðsstjóra Faxaflóahafna, taka skipin í sumar alls um 100 þúsund farþega. Þetta er töluverð aukning frá síðasta ári þegar skipakomur voru 67 og farþegar yfir 70 þúsund.

Skipakomur 2013 orðnar 65

Ágúst segir aukinn farþegafjölda sýna að skipin séu stöðugt að stækka en flestar hafa skipakomur til Reykjavíkur verið 83 fyrir fáum árum. Stærsta skip sumarsins, Celebrity Eclipse, er nærri 122 þúsund brúttótonn og kemur til Reykjavíkur 10. júlí. Stærsta skipið sem hingað hefur komið er um 116 þúsund tonn en til samanburðar má nefna að stærstu skip landsins; systurskipin Dettifoss og Goðafoss, eru ríflega 14 þúsund brúttótonn að stærð. Von er á enn stærra skemmtiferðaskipi hingað næsta sumar, Adventure of the Seas, sem er enn í smíðum og verður alls um 137 þúsund brúttótonn. Nú þegar eru boðaðar 65 skipakomur á næsta ári með um 90 þúsund farþega, og líklegt að þær tölur eigi eftir að hækka.

Á undanförnum árum hefur þeim skemmtiferðaskipum fjölgað sem stoppa í Reykjavík yfir nótt. Ágúst segir þessa þróun halda áfram. Nú muni 23 stór skip eiga hér næturdvöl og farþegar þeirra geti orðið hátt í 30 þúsund talsins.

„Þetta er ánægjuleg þróun og eykur viðskipti sem þessir farþegar skapa í landi,“ segir Ágúst en einnig er orðið meira um flug til Íslands til að skipta um farþega og áhafnir í skipunum.

Fundur var í gær hjá þeim fjölmörgu aðilum sem koma að móttöku skipanna í sumar; eins og Faxaflóahafnir, slökkviliðið, Tollgæslan, ferðaþjónustufyrirtæki og umboðsmenn skipafélaganna. Að mörgu er að hyggja, að sögn Ágústs, því nú sé verið að taka á móti álíka mörgum farþegum á hafnarbakka á fjórum mánuðum og gert var á öllu árinu 1983 gegnum Keflavíkurflugvöll, þegar um 100 þúsund manns komu til landsins.

Einna stærsti dagur sumarsins verður 18. júní þegar fjögur skip koma til Reykjavíkur. Áður hefur komið fram í Morgunblaðinu og víðar að skipin séu sex en Ágúst segir þau vera fjögur. Auk Skarfabakka, Miðbakka og Korngarðs þarf einnig að nýta Kleppsbakka þann daginn; höfn Eimskips.

AZURA er risastórt skemmtiferðaskip.
AZURA er risastórt skemmtiferðaskip. mbl.is/Ernir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert