Heildaráhrifin gætu numið 145 milljörðum

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Dómur Hæstaréttar í febrúar 2012 um endurreikning gengislána hafði umtalsverð áhrif á afkomu bankanna en vegna hans gjaldfærðu bankarnir um áramótin 2011 alls um 67 milljarða króna. Útreikningar Fjármálaeftirlitsins benda til þess að heildaráhrifin gætu mest orðið 145 milljarðar króna. FME segist hins vegar frekar eiga von á því að upphæðin verði “eitthvað lægri” heldur en sú sviðsmynd gerir ráð fyrir.

Er þetta lægri fjárhæð heldur en fyrra mat FME var en um miðjan apríl kom fram að Fjármálaeftirlitið teldi að heildaráhrif dóma Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána yrði í hæsta lagi 165 milljarðar. 

Samkvæmt niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins nú gætu viðbótaráhrif vegna dómsins að hámarki orðið 78 milljarðar króna, fari svo að öll lán sem óvissa ríkir um verði dæmd ólögmæt. Þá yrðu heildaráhrif vegna dómsins orðin 145 milljarðar króna. Viðskiptabankarnir yrðu þrátt fyrir það allir yfir 16% eiginfjárhlutfalli.

Fram kom í máli Tómasar Sigurðssonar, sérfræðings hjá FME, á fundi með blaðamönnum í morgun að von væri á þremur dómum á næstu tveimur mánuðum frá Hæstarétti sem munu að öllum líkindum skera úr um lögmæti hluta þeirra gengislána sem óvissa ríkir um í kjölfar dóms Hæstaréttar um miðjan febrúar.

Viðskiptabankarnir hafa nú þegar gjaldfært um 67 milljarða vegna dómsins, en samkvæmt niðurstöðu FME gætu viðbótaráhrif að hámarki orðið 78 milljarðar, fari svo að öll lán sem óvissa ríkir um verði dæmd ólögmæt. Heildaráhrif vegna dómsins yrðu því um 145 milljarðar.

Miðað við áætlun samráðshóps Samtaka fjármálafyrirtækja og Umboðsmanns skuldara ætti endurreikningur gengisbundinna lána að geta hafist seinni hluta þess árs. Fjármálaeftirlitið er sammála því mati að ekki sé hægt að ráðast í endurreikning lána á meðan enn hefur ekki að fullu verið skorið úr þeim fjölmörgu álitaefnum sem uppi eru í tengslum við lögmæti gengislána.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert