Íbúar í Garði sýni stillingu

Sveitarfélagið Garður.
Sveitarfélagið Garður. www.svgardur.is

Bæjarfulltrúar D-listans í Garði og Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna árása sem Kolfinna S. Magnúsdóttir bæjarfulltrúi hefur mátt þola.

Kolfinnu hefur verið hótað líkamsmeiðingum. Í samtali við Víkurfréttir segir hún að stöðugar hringingar hafi borist til sín þar sem hótað er að gengið yrði í skrokk á henni ásamt því að allt sem hægt væri að nota til að brjóta hana niður andlega yrði notað gegn henni.

Kolfinna sagði um helgina skilið við meirihluta D-listans í Garði og gekk í raðir N-listans sem mun mynda nýjan meirihluta í bæjarstjórn Garðs með L-lista.

„Ég og einnig maðurinn minn höfum fengið símhringingar þar sem honum hefur verið sagt að árásir á mig og mína fjölskyldu séu hafnar og muni fólk ekki hætta fyrr en tekist hafi að flæma okkur í burtu,“ segir Kolfinna við Víkurfréttir.

Kolfinna hefur ekki bara mátt þola hringingar því húsið hennar hefur einnig verið barið að utan.

„Við undirritaðir fordæmum þær árásir sem bæjarfulltrúinn Kolfinna S. Magnúsdóttir hefur mátt þola og vitnað er til í umfjöllun á vef Víkurfrétta. Þær lýsingar sem lesa má í fréttinni á ekki neinn bæjarfulltrúi að þurfa að líða,“ segir í yfirlýsingu D-listans.

„Þær árásir sem vísað er til eru ekki á neinn hátt á vegum D-listans og ekki þeim sem það stunda til framdráttar.

 Þá biðjum við fólk í Garðinum að sýna stillingu og virða skoðanir fólks þó við séum ekki öll sammála þeim.“

 Undir þetta skrifa Einar Jón Pálsson, Brynja Kristjánsdóttir, Gísli Heiðarsson og Ásmundur Friðriksson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert