Aukin fjárframlög til Útlendingastofnunar rædd

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun minnisblað um hælisleitendur. Í minnisblaðinu er lagt til að auka fjárframlög til Útlendingastofnunar til að flýta fyrir málsmeðferð hælisleitenda. Minnisblaðið var aðeins lagt fram til kynningar en ekki samþykkt.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er fjallað um hinn mikla fjölda hælisleitenda sem bíður afgreiðslu mála sinna hjá Útlendingastofnun. Fjöldinn er svo mikill að víst þykir að umönnunarkostnaður muni fara langt fram úr áætlunum.

Sökum þessa leggur innanríkiráðuneytið til að fjárframlög verði aukin en það gæti orðið til að flýta málsmeðferð. Það muni draga úr umönnunarkostnaði þar sem hælisleitendur þurfa ekki að bíða jafn lengi, auk þess sem það sé mun mannúðlegra.

Minnisblaðið fæst þó ekki afhent, þar sem það var aðeins lagt fram á fundi ríkisstjórnarinnar til kynningar í morgun, en ekki samþykkt, eins og áður segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert