Öryggislending undirbúin í Keflavík

Leifsstöð
Leifsstöð Mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Verið er að undirbúa öryggislendingu Boeing-þotu á Keflavíkurflugvelli, en eitt af átta afturhjólum vélarinnar fór undan þegar hún tók á loft á leið til Bandaríkjanna í kvöld. 191 er um borð. Viðbúnaður er mikill en samkvæmt upplýsingafulltrúa ISAVIA er það fyrst og fremst til að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Hættustigi Almannavarna hefur verið lýst yfir og samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð virkjuð vegna atviksins. Hættustig er annað af þremur háskastigum í neyðarskipulagi Almannavarna, en þriðja stigið er neyðarstig. Friðþór Eydal, talsmaður ISAVIA, segir að brugðist sé við samkvæmt flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar og fylsta öryggis gætt.

Í þessu tilfelli felst það m.a. í að allt tiltækt lögreglu-, sjúkra- og slökkvilið hefur verið kallað til auk björgunarsveita og Landhelgisgæslu. Áætlað er að flugvélin lendi innan tíðar, en hún sveimar nú yfir Keflavík á meðan viðbragðsaðilar koma sér í stöðu á jörðu niðri. 

Vélin sem um ræðir er frá Icelandair og var á leið til Orlando í Bandaríkjunum. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, er gert ráð fyrir því að farþegarnir komist á leiðarenda með annarri vél síðar í kvöld.

Fréttatilkynning frá Almannavörnum: „Flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar hefur verið virkjuð vegna flugvélar sem missti hjól í flugtaki frá Keflavíkurflugvelli. Aðgerðastjórn á Keflavíkurflugvelli hefur verið virkjuð og stýrir aðgerðum á vettvangi.

Allt tiltækt björgunarlið hefur verið boðað samkvæmt flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert