Glíma við áhrif jarðhitanýtingar

Orkuveita Reykjavíkur glímir við mikilvæg umhverfisáhrif jarðhitanýtingar. Þar eru förgun brennisteinsvetnis og affallsvatns veigamikil. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur vegna frétta RÚV um tjörn vestan Hellisheiðarvirkjunar.

„Eðlilegt er að spurninga sé spurt um svo umfangsmikla nýtingu jarðhitans eins og fram fer í Hellisheiðarvirkjun. Í frétt Ríkisútvarpsins að kvöldi 23. maí um starfsemi Hellisheiðarvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur er tvennt sem Orkuveitan telur ástæðu til að bregðast við.

1. Látið er að því liggja að fyrirtækið hafi gefið rangar upplýsingar í fyrri frétt RÚV 18. maí um tjörn á flatlendinu vestan Hellisheiðarvirkjunar. Fréttamaður RÚV hafði síðdegis föstudaginn 18. maí samband símleiðis við starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur og spurði um umrædda tjörn og tilurð hennar.

Að óséðu og órannsökuðu máli, en af áratuga reynslu af náttúrufarsrannsóknum á svæðinu, gat forstöðumaður rannsókna OR sér þess til að um væri að ræða vatn úr þekktum, heitum uppsprettum í Sleggjubeinsdal fyrir ofan tjörnina og leysingavatn, enda hlýindi og snjóa að leysa.

Jafnframt hafði forstöðumaðurinn haft samband við stjórnendur virkjunarinnar til að grennslast fyrir um hvort truflun hefði orðið á starfsemi hennar, sem valdið gæti. Svo var ekki.

Á þessum forsendum og með þessum fyrirvörum voru fréttamanni veittar upplýsingar, sem vitaskuld voru ekki nákvæmar. Það er þess vegna miður að í frétt, sem flutt var um tjörnina miðvikudaginn 23. maí er látið sem um vísvitandi villandi upplýsingagjöf hafi verið að ræða. Sú er ekki raunin.

Starfsfólk Orkuveitunnar leitast við að gefa sem gleggstar upplýsingar innan þess frests sem starf fréttamanna krefst. Hvort rétt var í þessu tilviki að veita upplýsingar með fyrirvörum að órannsökuðu máli er umdeilanlegt.

2. Í frétt RÚV 23. maí segir að „Vatnið sem myndar nýja tjörn við Hellisheiðarvirkjun kemur að stórum hluta frá borholu við virkjunina.“ Fyrirsögn sömu fréttar á vef RÚV er „Tjörn kemur úr Hellisheiðarvirkjun.“

Ítarlegar greiningar á vatninu gætu varpað ljósi á uppruna þess en umhverfisstjóri Orkuveitunnar rakti upptök lækjar, sem rennur í umrædda tjörn, í vettvangsrannsókn. Í upplýsingum sem umhverfisstjórinn veitti fréttamanni RÚV og komu fram að hluta í frétt hans, kemur fram að lækurinn sé ekki nýr og eigi sér dreifð upptök.

Efst í Sleggjubeinsdal rennur vatn í hann úr heitum uppsprettum. Eitthvað lækjarins er leysingavatn úr sköflum í hlíðum dalsins og einnig rennur í hann vatn frá borholu í Sleggjubeinsdal, sem er í tímabundnum blæstri vegna tilraunaverkefnis. Hreint kælivatn frá Sleggjunni, útstöð Hellisheiðarvirkjunar fellur einnig í hann. Orkuveitan fagnar því aðhaldi sem rekstrinum er veitt, meðal annars með fréttaflutningi um umhverfismál honum tengd.

Hvað varðar vatnsgæði á Hengilssvæðinu almennt þá er jarðhitavatn ráðandi á yfirborði. Eðli háhitasvæðisins er að þar er vandfundið ferskvatn á yfirborði nema í mestu úrkomutíð. Þá myndast víða tjarnir og pollar, þar sem vatnið gæti verið drykkjarhæft. Samanburður á jarðhitavatninu og kröfum til drykkjarvatns leiðir raunar í ljós að ekki munar miklu að jarðhitavatnið stæðist kröfur sem gerðar eru til neysluvatns.

Grunnvatn á Hellisheiðinni, sem finnst á 400 til 800 metra dýpi, er hinsvegar prýðisgott. Við truflanir í rekstri Hellisheiðarvirkjunar hefur jarðhitavatni frá virkjuninni verið veitt á til þess gerðan neyðarlosunarstað. Þrátt fyrir að losun af þeim sökum hafi stundum verið meiri en æskilegt er, hafa engin áhrif af því mælst á grunnvatnið. Grunnvatnsgæðin eru vöktuð reglubundið með vísindalegum hætti,“ segir í tilkynningu frá OR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert