Fiskverð hækkað um 18% á viku

Fiskverð hafa hækkað um 18% á viku vegna veiðistöðvunar útvegsmanna.
Fiskverð hafa hækkað um 18% á viku vegna veiðistöðvunar útvegsmanna. Helgi Bjarnason

Meðalverð á fiski sem seldur var á fiskmörkuðum hérlendis í dag nam 336 kr/kg til samanburðar við 285 kr/kg síðasta þriðjudag. Þá voru seld 603 tonn en í dag voru eingöngu seld tæp 142 tonn af fiski. Hækkunin nemur tæplega 18%.

Þegar einstakar tegundir eru skoðaðar kemur í ljós að verð á óslægðum þorski hefur hækkað úr 349 kr/kg frá síðustu viku í 377 kr/kg í dag, eða um 8%. Verð á óslægðri löngu hefur hækkað úr 221 kr/kg í 313 kr/kg í dag eða um 42%. Verð á slægðum skarkola hefur hækkað úr 188 kr/kg í 296 kr/kg í þessari viku eða um 57%. Verð á óslægðum gullkarfa hefur hækkað úr 232 kr/kg í 274 kr/kg eða um 18% og verð á óslægðri ýsu hefur hækkað úr 439 kr/kg í 508 kr/kg í þessari viku.

Þar sem stór hluti útgerðar landsins er nú fastur við bryggju og verður út þessa viku hefur framboð af fiski á markað dregist saman verulega og af þeim sökum hafa verðin hækkað. Ef heldur áfram sem horfir er ekki útilokað að þessi þróun haldi áfram og að verð geti hækkað enn frekar, en fiskur er boðinn upp daglega kl. 13 hjá fiskmörkuðum landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert