Mun draga máttinn úr útveginum

Verði frumvörp ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum að lögum munu þau draga máttinn úr sjávarútveginum og rýra möguleika hans til fjárfestingar, þróunar og aukinnar verðmætasköpunar. Þetta sagði Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, á fundi á Austurvelli í dag.

Adólf sagði að fyrir þremur árum hefðu verið boðaðar óraunhæfar hugmyndir um að gera aflaheimildir sjávarútvegsfyrirtækjanna upptækar með svokallaðri fyrningarleið. Síðan hefði mikil vinna farið í að reyna að koma í veg fyrir óraunhæfar hugmyndir sem hefðu kollvarpað rekstri fyrirtækjanna.

„Verði frumvörpin að lögum munu þau draga máttinn úr sjávarútveginum og rýra möguleika hans til fjárfestingar, þróunar og aukinnar verðmætasköpunar.  Það mun koma niður á starfsfólki, fjölda fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi og sveitarfélögum um land allt.  Síðast en ekki síst verða afleiðingarnar þær að lífskjör fólksins í landinu skerðast,“ sagði Adolf.

Adolf hvatti til víðtæks samráðs stjórnvalda, atvinnugreinarinnar og sveitarfélaganna um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun. Markmiðið ætti að vera að tryggja góð rekstrarskilyrði fyrirtækjanna og auka verðmætasköpun.

„Í stað þess að þiggja ríkisstyrki greiða íslenskar útgerðir nú þegar sérstakt gjald – veiðigjald í ríkissjóð.  Sú hagræðing og tæknivæðing sem átt hefur sér stað er forsenda þess að unnt sé að greiða gjaldið.“

Adolf sagði að útgerðarmenn hefðu árangurslaust reynt að ná eyrum stjórnvalda. Að stöðva fiskiskipaflotann í þessari viku væri neyðarkall okkar til þeirra. Hann skoraði á ríkisstjórnina að draga frumvörpin til baka og vinna málið með vönduðum hætti í breiðri samstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert