Flaggskip Suðurnesja verði skoðað

SpKef.
SpKef.

Síðustu starfsár Sparisjóðs Keflavíkur tóku stjórnendur ákvarðanir sem leiddu til falls hans og þess reiknings sem almenningur þarf nú að greiða. Þetta sagði fjármálaráðherra á Alþingi í morgun. Einnig að skoðað verði hvers vegna „flaggskip Suðurnesjamanna“ hafi farið svo illa sem raun bar vitni.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma við upphaf þingfundar var aðeins eitt mál á dagskrá, endurreisn fjármálafyrirtækja. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, spurði Oddnýju G. Harðardóttur fjármálaráðherra meðal annars út í þá 19 milljarða króna sem ríkið þarf að greiða vegna SpKef

Oddný sagði rétt að nú lægi niðurstaða fyrir og ljóst að greiða þyrfti rúma 19 milljarða sem vantaði upp á til að hægt væri að standa við þau fyrirheit og yfirlýsingar um að allar innistæður landsmanna væru tryggðar. „Því miður var það svo að eignasafnið reyndist ákaflega slæmt. Það var í mjög slæmu ásigkomulagi og eftir því sem það var skoðað betur kom í ljós hvernig staðan var,“ sagði Oddný og bætti við að von væri á skýrslu um fall sparisjóðanna þar sem þetta væri sérstaklega skoðað.

Þá sagði hún aðalatriðið að stjórnendur sparisjóðsins hefðu tekið slæmar ákvarðanir á síðustu starfsárum hans. Meðal annars nefndi hún að útlán hefðu verið ótryggð.

Aðeins spurning um illskástar leiðir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, greip boltann á lofti og spurði út í tap ríkissjóðs vegna inngripa fjármálaráðherra á grundvelli neyðarlaganna frá ársbyrjun 2010. Oddný brást illa við fyrirspurninni og spurði hvað þingmaðurinn hefði fyrir sér í því að það væri tap á inngripi ráðherra. Hún sagði ljóst að farið væri í slíkar aðgerðir vegna þess sem gerðist fyrir hrun, ákvarðana stjórnmálamanna og eigenda fjármálafyrirtækja sem stýrðu hér.

Þá sagði Oddný ekki ætla að svara spurningum Sigmundar Davíðs enda væru þær settar fram með ósvífni.

Guðlaugur Þór hélt áfram og spurði næst Steingrím J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, um ábyrgð á endurreisn fjármálafyrirtækja. Steingrímur sagði skýrt hver bæri ábyrgð á hverju og bætti við að endingu, að ekki væri hátt risið á þingmönnum sem reyndu að koma ábyrgðinni af hruninu og skelfilega leiknum fjármálastofnunum af þeim sem stjórnuðu þeim og yfir á fjármálaráðuneytið.

Steingrímur sagði síðar og við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokks, að fáir góðir kostir hefðu verið í stöðunni og engir frá og með bankahruninu. Aðeins væri spurning um illskástu leiðirnar og þær væri reynt að velja hverju sinni. Hvað Sparisjóð Keflavíkur varðaði hefði ekki komið til greina að meðhöndla innistæðueigendur á Suðurnesjum á annan hátt en aðra.

Oddný Harðardóttir.
Oddný Harðardóttir.
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert