SpKef kostar álíka og háskólarnir

Samruni SpKef og Landsbankans var kynntur á blaðamannafundi í Reykjanesbæ …
Samruni SpKef og Landsbankans var kynntur á blaðamannafundi í Reykjanesbæ í í fyrra. mbl.is/Þórður

Kostnaður sem ríkissjóður þarf að taka á sig vegna SpKef er álíka há upphæð og kostnaður við rekstur allra háskóla á Íslandi á þessu ári. Ekki er búið að bókfæra tapið, sem er 19,2 milljarðar.

Saga Sparisjóðs Keflavíkur síðustu ár er ekki upplífgandi. Á árunum fyrir hrun stækkaði efnahagur sjóðsins hratt eins og reyndar átti við um fleiri fjármálastofnanir á Íslandi. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að um mitt ár 2008 sagði forstjóri Fjármálaeftirlitsins í starfshópi um fjármálastöðugleika að Sparisjóður Keflavíkur gæti lenti í vandræðum. Eigið fé sjóðsins hefði lækkað hratt. Eftirlitsaðilar virðast því hafa áttað sig á því talsvert fyrir hrun að sparisjóðurinn væri kominn á hættusvæði.

Það var hins vegar ekki fyrr en 22. apríl 2010 sem Fjármálaeftirlitið tók Sparisjóð Keflavíkur yfir. Allar eignir og innistæðuskuldbindingar voru settar inn í nýjan sjóð, Spkef. Jafnframt lagði ríkissjóður honum til 860 milljónir. Við þetta tækifæri sagði Gylfi Magnússon, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra: „Ég á von á því að þetta muni ekki kosta ríkið neitt. Það er að vísu ákveðin áhætta sem ríkið tekur.“

Fjármálaeftirlitið, sem hafði fylgst vel með Sparisjóði Keflavíkur, eins og því ber að gera fylgdist einnig vel með hinni nýju fjármálastofnun. Fyrir lá að stofnunin uppfyllti ekki skilyrði sem eru í lögum um lágmarks eiginfjárhlutfall. Í stuttu máli vantaði meira fjármagn inn í sjóðinn og taka yrði nýja ákvörðun um framtíð hans.

Þegar hrunið reið yfir haustið 2008 lýsti þáverandi ríkisstjórn því yfir að allar innistæður í bönkum og sparisjóðum yrðu tryggðar. M.ö.o. þeir sem áttu peninga í banka töpuðu ekki þó að eignir bankanna rýrnuðu í verði.

Ný ríkisstjórn ákvað að standa við þessa yfirlýsingu og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á Alþingi haustið 2010 að það þýddi að ríkið kæmist ekki hjá því að taka á sig kostnað vegna SpKef. Þá var talið að kostnaðurinn yrði um 11 milljarðar.

Hélt áfram að safna innlánum

Þegar Landsbankinn yfirtók SpKef í mars 2011 stóðu innlán sparisjóðsins í 57 milljörðum. Í frétt í Viðskiptablaðinu á þessum tíma kom fram að innlán í  SpKef jukust  um 12% frá árslokum 2008 til ársloka 2010. Á sama tíma drógust innlán í Byr, sem var fjármálastofnun sem einnig var í basli, saman um 14%. Þess má geta að SpKef bauð á þessum tíma afar hagstæða innlánsvexti og líklega hæstu vexti á landinu.

Sú spurning vaknar hvers vegna SpKef var leyft að auka söfnun innlána þegar ljóst var að eignir hans voru að rýrna. Þess ber að geta að það voru ekki bara einstaklingar sem áttu innistæður í sjóðnum. Sveitarfélög áttu stórar fjárhæðir í sjóðnum.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að eignasafn SpKef reyndist lélegra en vonast var eftir. Gæði útlána voru ekki mikil, en það má að nokkru leyti rekja til þess að verð á fasteignum og verðbréfum lækkaði í kjölfar hrunsins. Mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum hafði neikvæð áhrif á sparisjóðinn. Sjóðurinn þurfti að afskrifa mikið vegna lána til fyrirtækja og eignarhaldsfélaga. Sjóðurinn hafði lánað gengistryggð lán og þurfti að taka á sig tap vegna þeirra þegar í ljós kom að gengistrygging var ólögleg.

Á grundvelli hvaða upplýsinga voru ákvarðanir teknar?

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við mbl.is, að þetta mál vekti margar spurningar. Í upphafi hefðu stjórnvöld sagt að kostnaður ríkissjóðs yrði enginn, síðar hefði verið sagt að hann yrði 11 milljarðar en nú væri komið í ljós að hann yrði 19,2 milljarðar. Sú spurning vaknaði á grundvelli hvaða upplýsinga hefðu menn tekið ákvarðanir í þessum málum. Landsbankinn hefði a.m.k. verið fljótur að átta sig á því að verðmæti eigna SpKef væri mun minna en stjórnvöld hefðu sagt að það væri. Annað hvort hefðu stjórnvöld ekki unnið heimavinnu sína eða þau hefðu leynt upplýsingum um hversu staðan væri slæm.

Bjarni sagði að hann myndi á Alþingi fara fram á skýringar á þessu og að öll gögn yrðu lögð á borðið, þar á meðal úrskurður úrskurðarnefndar um uppgjör milli íslenska ríkisins og Landsbankans vegna yfirtöku á Spkef.

Bætir ekki stöðu ríkissjóðs

Það er ljóst að það bætir ekki stöðu ríkissjóðs að hafa þurft að taka á sig 19,2 milljarða króna vegna SpKef. Fjárlög gera ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með 20 milljarða tapi á þessu ári.

Ekki er búið að bókfæra neitt í ríkisbókhaldi út af SpKef, en fjármálaráðherra sagði í samtali við RÚV í kvöld að þessi skuldbinding færi inn í bókhald ríkissjóðs vegna ársins 2011. Skuldin sjálf verður greidd með skuldabréfi sem ríkissjóður gefur út. Bréfið verður með gjalddaga þann 9. október 2018.

Til að setja þennan kostnað í samhengi þá má geta þess að það kostar rúmlega 20 milljarða að reka alla háskóla landsins á þessu ári. Það kostar 19,5 milljarða að reka Landspítalann í sex mánuði.

Ríkissjóður þarf að taka á sig 19,2 milljarða vegna SpKef.
Ríkissjóður þarf að taka á sig 19,2 milljarða vegna SpKef. mbl.is/Ernir
Greiða á skuldina sem verður til vegna SpKef árið 2018.
Greiða á skuldina sem verður til vegna SpKef árið 2018. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert