Átök í Héraðsdómi Reykjavíkur

Komið með Börk Birgisson í réttarsalinn í morgun
Komið með Börk Birgisson í réttarsalinn í morgun mbl.is

Aðalmeðferð í máli gegn Berki Birgissyni átti að hefjast skömmu eftir klukkan níu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en tafðist óvænt þegar ungur karlmaður í annarlegu ástandi reyndi að nálgast Börk.

Börkur er ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og ærumeiðingar gagnvart opinberum starfsmanni.

Þegar verið var að leiða Börk inn í dómsal í héraðsdómi gekk upp að honum ungur karlmaður í annarlegu ástandi. Hann gerði tilraun til þess að komast framhjá lögreglumönnum og afhenda Berki einhvern hlut á leið inn í dómsalinn. Lögreglumenn hindruðu manninn í að nálgast hinn ákærða og varð hann við það mjög æstur. 

Þurfti lögregla að skakka leikinn og halda þeim aðskildum.

Maðurinn kallaði lögreglumenn og þingverði öllum illum nöfnum og kom til átaka á milli hans og lögreglu þegar lögreglumenn gerðu tilraun til að yfirbuga hann.

Fljótlega var kallað eftir frekari aðstoð lögreglu og þingvarða en eftir nokkrar stimpingar var maðurinn svo handtekinn.

Aðalmeðferð hófst svo skömmu eftir þessa uppákomu en fljótlega var gert hlé eftir að verjandi óskaði eftir því að Börkur fengi að kynna sér betur öll gögn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert