Gengu gegn nauðgunum

Hundruð manna tóku þátt í Druslugöngunni sem lagði af stað frá Hallgrímstorgi klukkan tvö í dag. Hópurinn gekk fylktu liði niður Skólavörðustíginn og að Lækjartorgi þar sem haldnir voru tónleikar.

Göngufólk bar borða og skilti og margir hrópuðu slagorð gegn nauðgunum. Yfirlýst markmið Druslugöngunnar er að færa ábyrgð kynferðisglæpa frá fórnarlömbunum yfir á gerendur og hvetja fólk til að einblína ekki á klæðnað eða hegðun þolenda sem mögulega afsökun fyrir glæpamenn.

Nafnið á göngunni er sótt í þá vel þekktu afsökun nauðgara að fórnarlambið hafi viljað láta nauðga sér.

Þetta er í annað sinn sem Druslugangan er gengin á Íslandi en fyrirmyndin er erlend.

Í ár var orðinu „meint“ skellt fyrir framan heiti göngunnar til að vekja fólk til umhugsunar um þá stöðu sem þolendur upplifa þegar fyrirvari er settur á frásagnir þeirra, eins og segir í tilkynningu frá aðstandendum göngunnar.

„Við viljum vekja athygli á orðræðuna í samfélaginu og hvernig fólk er tilbúið að leyfa brotamanni að njóta vafans á meðan hin raunverulegu fórnarlömb eru vænd um meiðyrði,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert