Verðum að vera sókndjörf

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands í dag.
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Kristinn

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði í ræðu sinni við brautskráningu Háskóla Íslands í dag að Íslendingar gætu átt stóran þátt í lausn umfangsmikilla viðfangsefna samtímans og framtíðar.

Í því samhengi benti Kristín á að tryggja þyrfti háskólastarfi í landinu nægilegt fjármagn því það skilaði samfélaginu ávinningi. Háskóli Íslands þyrfti að vera í senn skapandi og vakandi og mætti aldrei sætta sig við kyrrstöðu.

Íslendingar geta átt mikinn þátt í lausn á viðfangsefnum framtíðar

„Á jörðinni búa um 7 milljarðar manna. Á næstu fjórum áratugum, sem er um það bil starfsævi ykkar sem útskrifast í dag, er gert ráð fyrir að jarðarbúum fjölgi um tvo milljarða,“ sagði Kristín meðal annars í ræðu sinni.

Hún benti á að hagfræðingar hefðu tengt meira en 85% af efnahagslegum ávinningi síðustu áratuga við árangur í vísindum. Á næstu árum yrðu slík verkefni brýnni en nokkru sinni. Verkefnin væru svo stór að engin þjóð, ekkert eitt háskólakerfi, engin ein vísindastofnun gætu leyst þau á eigin spýtur.

Kristín segir þátt Íslendinga geta verið mikinn í lausn umfangsmikilla viðfangsefna. Og ávinningurinn verði í réttu hlutfalli við þau markmið sem við setjum og í réttu hlutfalli við það afl og þá fjármuni sem við verjum til starfsins.

„Þess vegna verðum við að vera sókndjörf og marksækin, og aldrei sætta okkur við kyrrstöðu eða stöðnun.“

Kristín benti á nokkur dæmi þar sem íslensk þekking væri á heimsmælikvarða svo sem í orkuvinnslu og orkunýtingu en Háskólinn væri leiðandi á því sviði í stóru samstarfsverkefni evrópskra háskóla.

Sjá einnig: Útskrift HÍ í dag.

HÍ útskrifar metfjölda í dag.
HÍ útskrifar metfjölda í dag. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert