Agnes vígð sem biskup Íslands

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir hefur tekið við embætti biskups Íslands en hún er fyrsta konan sem gegnir því embætti. Fráfarandi biskup, Herra Karl Sigurbjörnsson, lét biskupskrossinn um háls Agnesar og þvínæst var hún færð í kórkápu biskups af sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur sem fyrst kvenna var vígð til prests á Íslandi. Þá lögðu vígsluvottar auk fráfarandi biskups hendur sínar á höfuð hennar á meðan lokið var við vígsluna.

Karl Sigurbjörnsson kom víða við í ræðu sinni við athöfnina og réð arftaka sínum meðal annars heilt vegna embættistöku hennar. Sagði hann meðal annars að kastljósið myndi beinast að henni sem biskupi meira en hún hefði kynnst áður. Þá sagði fráfarandi biskup einnig að ýmsir myndu segja við hana að hún ætti að vera leiðarljós. Hann vitnaði hins vegar í erlendan biskup sem hefði sagt við sig þegar hann sjálfur tók við embættinu að hann myndi oftar en ekki upplifa sig sem skotskífu.

Sr. Agnes er 57. biskupinn yfir Íslandi talið frá Ísleifi Gissurarsyni sem vígður var árið 1056 til biskups í Skálholti. Eins og fram hefur komið á mbl.is fóru íslenskir biskupar lengst af úr landi til þess að hljóta vígslu allt þar til Þórhallur Bjarnason var vígður í Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1908. Síðan voru biskupar Íslands vígðir þar eða þar til Karl Sigurbjörnsson var vígður í Hallgrímskirkju árið 1998.

Fjölmenni var við athöfnina og þar á meðal núverandi og fyrrverandi forseti Íslands. Einnig var Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, viðstödd og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. Þá voru ennfremur fulltrúar erlendra kirkjudeilda, bæði frá hinum Norðurlöndunum og Bretlandseyjum, viðstaddir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert