Alvarlegt slys á Bestu útihátíðinni

Litbolti.
Litbolti. Ómar Óskarsson

Karlmaður var fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi eftir alvarlegt slys á Bestu útihátíðinni. Engar upplýsingar fást um líðan mannsins að svo stöddu frá Landspítalanum  eða lögreglunni á Hvolsvelli en frá Landhelgisgæslu Íslands fékkst staðfest að um væri að ræða alvarlega áverka.

Atvik eru enn nokkuð óljós en samkvæmt heimildum mbl.is mun maðurinn hafa tekið þátt í litboltaleik (e. paintball). Í slíkum leik eru notaðar byssur sem ganga fyrir gasi. Í þessu tilviki virðist sem gashylkið hafi sprungið með þeim afleiðingum að maðurinn brenndist illa.

Þá þegar var ljóst að um alvarlegt slys var að ræða og því haft samband við Landhelgisgæsluna og óskað eftir þyrlu til að flytja manninn á sjúkrahús. Sú ósk var síðar afturkölluð þar sem sjúkrabifreið var snögglega komin á vettvang og talið að styttri tíma tæki að flytja manninn með henni á Landspítalann.

Þegar leitað var upplýsinga á Landspítalanum fengust þær upplýsingar að engar upplýsingar yrðu gefnar í nótt um líðan mannsins.

Litboltaleikur.
Litboltaleikur. Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert