Þurfa að endurskoða fjárhagsáætlanir

Hafnarfjörður er eitt þeirra sveitarfélaga sem þurfa að endurskoða fjárhagsáætlun …
Hafnarfjörður er eitt þeirra sveitarfélaga sem þurfa að endurskoða fjárhagsáætlun sína. www.mats.is

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent nokkrum sveitarfélögum bréf þar sem tilkynnt er að þau uppfylli ekki ákvæði sveitarstjórnarlaga um rekstur og skuldastöðu. Óskað er eftir upplýsingum um hvernig þau ætla að uppfylla ákvæði laganna.

Ný sveitarstjórnarlög tóku gildi á síðasta ári. Í þeim er að finna strangari ákvæði um fjármál sveitarfélaga en í eldri lögum. Í 64. grein laganna segir að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta megi á hverju þriggja ára tímabili ekki vera hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum, og jafnframt megi heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta ekki nema hærri upphæð en sem nemur 150% af reglulegum tekjum.

Í bráðabirgðaákvæði við lögin segir að fyrir fyrir 1. september 2012 skuli sveitarstjórnir samþykkja raunhæfa áætlun um hvernig þau hyggjast ná viðmiðunum laganna í fjármálum. Ef það er nauðsynlegt má sveitarstjórn setja fram áætlun sem gerir ráð fyrir að markmiðinu sé náð á 10 árum.

Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaganna hefur lokið við að fara yfir fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna og kanna skuldastöðu þeirra. Hún sendi í lok síðasta mánaðar bréf til sveitarfélaga sem ekki uppfylla ákvæði laganna.

Bæjarráð sveitarfélaganna hafa verið að taka þessi bréf eftirlitsnefndarinnar fyrir og undirbúa viðbrögð við þeim. Meðal sveitarfélaga sem búin eru að taka þessi bréf fyrir eru Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Borgarbyggð, Blönduósbær og Fljótsdalshérað. Vinna við að endurskoða fjárhagsáætlun og undirbúningur áætlunar um lækkun skuldastöðu stendur yfir.

Mbl.is hefur óskað eftir að fá upplýsingar frá eftirlitsnefndinni um hvaða sveitarfélög fengu bréf frá nefndinni, en upplýsingar um það hafa ekki borist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert