Freyja: Hefði sjálf kært kosningarnar

Skýr skilaboð felast í kæru þriggja einstaklinga til Hæstaréttar, varðandi …
Skýr skilaboð felast í kæru þriggja einstaklinga til Hæstaréttar, varðandi framkvæmd forsetakosninganna að sögn Freyju. Morgunblaðið/Ernir

„Ég skil bara mjög vel að það hafi verið ákveðið að kæra. Ég hefði gert það sjálf ef ég hefði ekki fengið að kjósa með minni eigin aðstoð,“ segir Freyja Haraldsdóttir um kæru þriggja einstaklinga, með stuðningi Öryrkjabandalagsins, til Hæstaréttar vegna framkvæmdar forsetakosninganna 30. júní síðastliðinn.

Fyrir forsetakosningarnar gagnrýndi Freyja að fá ekki að kjósa með liðsinni aðstoðarmanns að eigin vali, en að sögn yfirvalda hafði farist fyrir að láta breyta lagaákvæði þar að lútandi. Undanþága var hins vegar gerð í hennar tilfelli þegar á kjörstað var komið og fékk Freyja að njóta liðsinnis aðstoðarkonu sinnar við kosninguna. Því var þó ekki eins farið með aðra fatlaða víðast hvar um landið.

„Í ljósi þess hvað er búið að liggja fyrir þinginu og innanríkisráðherra að breyta þessu lengi finnst mér eðlilegt að fara þá leið að kæra kosninguna, það er búið að vanrækja málið. Við erum búin að benda á það ítrekað í mörg ár að breyta þurfi umræddu ákvæði og það hefur ekki verið gert,“ segir Freyja.

Allar leiðir reyndar til þrautar

„Þetta er í rauninni ekkert öðruvísi en aðrir minnihlutahópar hafa þurft að vinna, hvort sem það eru samkynhneigðir eða fatlaðir erlendis. Búið er að reyna allar leiðir til þrautar og endar á að fólk þarf að kæra eitthvert athæfi til þess að gefa skýr skilaboð um að ekki sé hægt að ganga lengra.“

Væntir Freyja þess að niðurstaða fáist í málinu fljótlega en nýtt kjörtímabil forseta hefst í ágúst. Taka þarf því afstöðu til kærunnar fyrr en seinna.

„Alveg sama hvernig fer - hvort sem kosningarnar verða dæmdar ógildar eða ekki - er það að fara þessa kæruleið í mínum huga leið sem fólk velur að fara til að gefa skýr skilaboð um að það láti ekki bjóða sér svona framkomu meir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert