Fjöldi hátíða um verslunarmannahelgina

Frá Mýrarboltamótinu á Ísafirði.
Frá Mýrarboltamótinu á Ísafirði. halldór Sveinbjörnsson

Aðstandendur útihátíða eru nú í óðaönn að undirbúa þær. Stærstu hátíðirnar verða væntanlega í Vestmannaeyjum og á Akureyri, en einnig er búist við nokkrum fjölda á ýmsar smærri hátíðir víða um land. Torfærukeppni traktora, mýrarbolti og Sæludagar í Vatnaskógi eru nokkrir af kostunum. 

Hér er farið yfir nokkrar hátíðir og samkomur um helgina, en ekki er um tæmandi samantekt að ræða.

Sæla og skemmtun í Vatnaskógi

Sæludagar verða í Vatnaskógi á vegum KFUM og KFUK. Sæludagar eru fjölskylduhátíð, þar sem markmiðið er að bjóða upp á vímulausa hátíð fyrir alla aldurshópa. Dagskráin stendur frá fimmtudagskvöldi fram að hádegi á mánudegi og þar kennir ýmissa grasa, zumbadanskennsla er í boði, söngur og gleði, vatnafjör, bingó, kassabílarall, tónleikar og dansleikir.

Pabbar, pítsur og lautarferðir

Dagskrá Einnar með öllu hefst á fimmtudaginn með tónleikum á vegum sjónvarpsstöðvarinnar N4. Fjöldi stórstjarna kemur þar fram, þar á meðal verða Mannakorn, Ingó Veðurguð og bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór. Dagskrá verður síðan fram á sunnudag og er hún afar fjölbreytt; auk tónleika og dansleikja verður feðrum gefinn kostur á að sýna færni sína í pítsubakstri í keppninni Pabbar og pizzur, farið verður í lautarferð, flóamarkaður og kirkjutröppuhlaup, svo nokkuð sé nefnt. Aldurstakmark inn á tjaldsvæði Akureyrarbæjar er 18 ár.

Neistaflug

Neistaflug í Neskaupstað verður haldið í 20. skiptið í ár. Hátíðin hefst á miðvikudagskvöldið og stendur fram á mánudag. Strandblak, brekkusöngur, krakka-idol, söngvakeppni bæjarhluta og dorgveiði er meðal þess sem boðið verður upp á, auk fjölda dansleikja og tónleika.

Edrú um helgina

SÁÁ heldur Edrúhátíð um verslunarmannahelgina á Laugalandi í Holtum. Hekluganga, dansleikir, leiksýningar, bingó, hugleiðsla og ýmsir fyrirlestrar verða á dagskránni fyrir hátíðargesti, auk fjölbreyttrar barnadagskrár. Að auki verða tónleikar föstudag, laugardag og sunnudag. Hátíðin er líka matarhátíð, þar verður rekin taílensk matstofa og boðið upp á úrvals kaffi.

Álfaborgarsjens

Hátíðin Álfaborgarsjens hefur verið haldin á Borgarfirði eystra undanfarin 20 ár. Hátíðin verður sett á föstudaginn og síðan hefst fjölbreytt dagskrá sem lýkur á sunnudag. Meðal þess sem gestum hátíðarinnar verður boðið upp á er hagyrðingamót, ævintýraferð og ýmsir tónlistarviðburðir.

Hefst á húkkaraballinu

Þjóðhátíð í Eyjum byrjar að venju með Húkkaraballinu á fimmtudaginn, en hátíðin verður síðan sett formlega klukkan 14:30 á föstudaginn. Eftir það tekur við dagskrá fram á sunnudag, þegar hápunktinum er náð með brekkusöng klukkan 23:20. Að því loknu taka við dansleikir. Af öðrum dagskrárliðum Þjóðhátíðar má nefna söngvakeppni barna, brúðubílinn, íþróttasýningar, dansleiki og tónleika.

Innipúkinn er á sínum stað

Innipúkinn verður á sínum stað í Iðnó, en að auki verður svokölluð extra-dagskrá á Kexinu. Fjöldi tónlistarmanna kemur fram á Innipúkanum, þeirra á meðal Moses Hightower, Tilbury, Jónas Sigurðsson og Dr. Gunni.  Nánari upplýsingar eru á facebooksíðu Innipúkans.

Vestfirsk drulla

Drullugasta hátíðin er líklega á Ísafirði, á Mýrarboltamótinu. Auk keppninnar, sem hefst á laugardagsmorgun, verða þar dansleikir á föstudag, laugardag og sunnudag. Ýmis önnur afþreying verður á svæðinu.

Traktorar á Flúðum

Hin árlega traktorstorfæra á Flúðum verður í Litlu-Laxá í Hrunamannahreppi á laugardaginn, klukkan 13:30. Keppnin hefur löngum dregið að mikinn mannfjölda og hafa tíu keppendur nú skráð sig til leiks.

Stærsta íþróttamót ársins

Stærsta íþróttamót ársins, Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina. Búist er við á þriðja þúsund keppendum og keppt verður í 14 greinum. Að auki verður ýmis afþreying og skemmtanahald á landsmótinu, þar á meðal tónleikar og dansleikir, hæfileikakeppnir, þrautir og leiktæki.

Síldarævintýri á Siglufirði

Líkt og undanfarið ár munu Siglfirðingar slá upp veislu um verslunarmannahelgina og bjóða gestum á Síldarævintýri. Af nógu verður að taka fyrir alla fjölskylduna, en á dagskránni eru m.a. listasmiðjur, töfrabragðanámskeið og ýmis tónlistaratriði. Þá verður að vanda hægt að horfa á síldarsöltun með gamla laginu. 

Búast má við að margir sæki útihátíðir um verslunarmannahelgina.
Búast má við að margir sæki útihátíðir um verslunarmannahelgina. mbl.is
Frá Þjóðhátíð í Eyjum.
Frá Þjóðhátíð í Eyjum. mbl.is/Ómar Garðarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert