Eftirliti var ábótavant

mbl.is/Eggert

Innanríkisráðuneytinu hefur borist skýrsla Flugmálastjórnar Íslands um atvik á Keflavíkurflugvelli aðfaranótt 8. júlí þegar tveir menn komust yfir girðingu, um flugvélastæði og inn í flugvél sem beið brottfarar. Í skýrslunni segir m.a. að ljóst sé að eftirliti með aðgangsstýringu, eftirliti með flughlaði og vernd loftfars hafi verið ábótavant.

Innanríkisráðuneytið segir að unnið verði áhættumat og lagðar fram tillögur um hvernig heppilegast sé að haga flugvernd á Keflavíkurflugvelli til frambúðar til að fyrirbyggja atvik sem þetta.

Í skýrslu Flugmálastjórnar segir, að mennirnir hafi komist yfir girðingu þar sem framkvæmdir hafi staðið yfir, óséðir yfir hlað og ekki sést á eftirlitsmyndavélum, upp stigabíl og um borð í flugvél sem hafi verið opin og óvöktuð. Þá segir að deildarstjóri flugvalla- og flugverndardeildar hafi strax farið fram á að leitað yrði allt haftasvæði flugverndar sem mennirnir hefðu hugsanlega getað haft aðgang að.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef innanríkisráðuneytisins. Þar segir að eftir atvikið hafi Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra óskað eftir því við Flugmálastjórn að fá skýrslu um málið og hvernig brugðist skuli við til að koma í fyrir að slíkur atburður geti endurtekið sig.

„Í bréfi Péturs K. Maack flugmálastjóra með skýrslunni til ráðuneytisins segir að í kjölfar þess að mennirnir fundust á salerni flugvélarinnar hafi strax verið gripið til ráðstafana til að tryggja að mennirnir hefðu ekki valdið spjöllum á svæðinu og að eftirlit og verklag hefði verið hert. Flugmálastjórn hefur metið skammtímalausnir og aðgerðir og hið herta eftirlit sem þegar hefur verið gripið til og telur þær ráðstafanir fullnægjandi. Flugmálastjóri segir að áhættumati sé beitt í æ ríkari mæli og leggur til að flugverndarráð, sem meðal annars hefur það verkefni að endurskoða flugverndaráætlun, verði kallað saman til fundar í haust til að ræða atvikið og stöðuna í flugverndarmálum,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

„Þá hélt Flugmálastjórn fund með fulltrúum Isavia, flugrekenda og fulltrúa ríkislögreglustjóra þar sem ítrekuð var ósk um áhættumat. Farið verði yfir allt verklag, myndavélavöktun, rýni á starfsemi, mönnun stjórnstöðvar, vernd loftfars og fleiri þætti. Var veittur frestur til 31. ágúst til að skila lokaskýrslu sem byggist á slíku áhættumat. Á meðan mun verða fylgst með þeim skammtíma ráðstöfunum sem hafa nú þegar verið innleiddar og meta virkni þeirra reglulega,“ segir ennfremur.

Loks kemur fram að innanríkisráðuneytið hafi fylgst með framvindu málsins og muni meta stöðuna þegar lokaskýrsla liggur fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert