Tekinn á 146 km hraða

Lögreglan á Suðurnesjum hafði um helgina afskipti af ellefu ökumönnum, sem gerðust brotlegir við umferðarlög. Fimm óku of hratt og mældist bifreið karlmanns á fimmtugsaldri á 146 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn er 90 kílómetrar.

Annar þessara fimm var ölvaður undir stýri og var því handtekinn og sviptur ökuréttindum. Sá þriðji talaði í farsíma, án handfrjáls búnaðar, meðan á hraðakstrinum stóð.

Að auki klippti lögregla númerin af nokkrum bílum sem ýmist voru óskoðaðir, ótryggðir eða hvort tveggja. Einn þessara bíla hafði ekki verið skoðaður síðan 2010.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra var með útrunnið ökuskírteini. Mennirnir voru báðir handteknir og færðir á lögreglustöð, þar sem tekin var af þeim skýrsla og þeim sleppt að því loknu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert