Einrænn og kurteis geimfari veiddi við Helluvað

Sverrir Pálsson, ljósmyndari og fréttaritari Morgunblaðsins, myndaði geimfarann Neil Armstrong er hann kom hingað til æfinga árið 1967. Sverrir segir Armstrong hafa verið hlédrægan og nokkuð einrænan.

Neil Armstrong er nú látinn, 82 ára að aldri. Hann var fyrsti maðurinn sem steig á tunglið en kom ásamt fleiri geimförum hingað til lands til þess að undirbúa ferð sína út í geim.

„Ég hitti hann fyrst við Helluvað að kvöldi til. Þá var hópurinn á leið austur í Dyngjufjöll, í Drekagil þar sem hann sló upp tjaldbúðum,“ rifjar Sverrir upp en hann og Óli Tynes fylgdust með geimförunum hér á landi fyrir Morgunblaðið.

Kvöldið sem Sverrir hitti Armstrong var hlýtt og bjart, enda hásumar. „Hann hafði fengið lánaða veiðistöng og ætlaði að renna fyrir silung í hólmunum við Helluvað. Ég veit ekki hvort hann fékk nokkurn fiskinn en ég gekk í veg fyrir hann og með honum út í hólmana. Hann samþykkti að ég tæki mynd af sér og við spjölluðum svolítið saman. Þetta var afskaplega elskulegur maður og ég smellti af honum nokkrum myndum.“

Sverrir hitti svo Armstrong aftur austur í Dyngjufjöllum. „Það var alveg sama framkoman og persónuleikinn,“ segir Sverrir um geimfarann. „Hann var svolítið einrænn og þótti gott að vera í rólegheitum.“

Sverrir segir að Armstrong og félagar hafi m.a. komið hingað til lands til að læra jarðfræði. „Þeir fengu jarðfræðiverkefni hjá Guðmundi Sigvaldasyni og Sigurði Þórarinssyni sem fylgdu þeim um Ísland. Þeir áttu að skila skýrslu um það sem fyrir augu bar. Því þessi ferð hingað var til þess að æfa geimfarana í því að átta sig á ókunnu umhverfi.“

Samdi vísu um geimferðina

Sverrir fylgdist eins og aðrir með því er Neil Armstrong og Buzz Aldrin lentu á tunglinu árið 1969. „Ég gerði meira að segja vísu um það,“ segir Sverrir en vísan er svona:

Hitti ég við Helluvað

handan dals og fjarðar

þann sem fyrstur fótum trað

fylgihnöttinn jarðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert