Óttast eftirgjöf í makríldeilunni

Ásmundur Einar Daðason sat fund utanríkismálanefndar um makríldeiluna.
Ásmundur Einar Daðason sat fund utanríkismálanefndar um makríldeiluna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fulltrúar Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd Alþingis óttast að ríkisstjórnin ætli að láta undan hótunum Evrópusambandsins í makríldeilunni. Þeir segja að ríkisstjórnin eigi að fordæma opinberlega og bregðast mjög hart við allri umræðu um fyrirhugaðar refsiaðgerðir af hálfu ESB.

Sigurður Ingi Jóhannsson og Ásmundur Einar Daðason sátu nýverið fund í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem farið var yfir stöðu makríldeilunnar og fyrirhugaðan samningafund í London næstkomandi mánudag.

Þeir sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem segir: „Framsókn telur ástæðu til að hafa áhyggjur af því ríkisstjórnin láti undan af hótunum um refsiaðgerðir og stöðvun aðildarviðræðna við ESB og gefi eftir kröfur Íslendinga í makríldeilunni. Það er mjög alvarlegt ef ríkisstjórnin ætlar að gefa eftir gríðarlega þjóðarhagsmuni á þessum forsendum en reynsla undanfarinna ára gefur fullt tilefni til að hafa áhyggjur. Nægir þar að minnast á undanlátssemi stjórnvalda gagnvart hótunum Evrópuríkja í Icesave-málinu. Það skal tekið skýrt fram að ríkisstjórnin hefur ekki umboð fulltrúa Framsóknarflokksins til slíkra tilslakana í makrílmálinu.

·        Framsókn hefur frá upphafi þessarar deilu barist fyrir því að samningar náist um eðlilega hlutdeild Íslendinga í makrílstofninum. Tíminn hefur unnið með Íslendingum í málinu, enda sýna nýlegar rannsóknir að aldrei hefur verið meira magn af makríl í íslenskri lögsögu og hann er nú farinn að hrygna hér við land. Málstaður Íslendinga er því réttmætur og vel studdur vísindalegum rannsóknum.

·        Framsókn telur ámælisvert hvernig haldið hefur verið á kynningarmálum þegar kemur að afstöðu Íslands í málinu.  Stjórnvöld hafa í allt of litlum mæli brugðist við í erlendum fjölmiðlum þegar aðildarríki ESB fara ítrekað fram með rangar staðhæfingar. Framsókn skorar á ríkisstjórn Íslands að gera stórfellda bragarbót á kynningu á málstað Íslands í makríldeilunni á erlendum vettvangi.

·        Framsókn telur nauðsynlegt að ríkisstjórnin fordæmi opinberlega og bregðist mjög hart við allri umræðu um fyrirhugaðar refsiaðgerðir af hálfu ESB. Meðal refsiaðgerða sem nefndar hafa verið eru aðgerðir andstæðar EES samningnum sem Ísland og Evrópusambandið eru aðilar að. Mikilvægt er að ríkisstjórn Íslands komi skýrum mótmælum á framfæri á alþjóðavettvangi vegna fyrirhugaðra brota ESB á samningnum.“

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert