Búist við baráttu í Kraganum

Árni Páll Árnason þingmaður var efstur á lista Samfylkingarinnar í …
Árni Páll Árnason þingmaður var efstur á lista Samfylkingarinnar í Kraganum fyrir síðustu alþingiskosningar.

Búist er við harðri baráttu um efstu sætin á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum, en Magnús Orri Schram, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir, sem tekur við starfi fjármálaráðherra í næstu viku, munu öll gefa kost á sér.  

Áður hefur komið fram að Lúðvík Geirsson, þingmaður og fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, stefni á efstu sæti listans.

Árni Páll var í efsta sæti listans fyrir síðustu kosningar og í viðtali við Bæjarblaðið Hafnarfjörð sem kemur út á morgun segist hann stefna á það sæti aftur. „Ég staðfesti að ég hyggst leita aftur eftir stuðningi til að leiða framboðslista Samfylkingarinnar í kjördæminu,“ segir Árni Páll.

Magnús Orri segir í samtali við Bæjarblaðið Hafnarfjörð að hann ætli að bjóða sig fram til eins af forystusætunum. Þá staðfesti Katrín við Bæjarblaðið Hafnarfjörð að hún myndi gefa kost á sér áfram, en vildi bíða með allar yfirlýsingar. „Get þó staðfest að ég hyggst gefa kost á mér áfram.“

Katrín var í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar í apríl 2009, Þórunn Sveinbjarnardóttir var í því þriðja, en hún hætti á þingi í fyrra. Magnús Orri var í fjórða sæti og Lúðvík í því fimmta. Samfylkingin fékk fjóra þingmenn kjörna í kjördæminu.

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir. mbl.is/Eggert
Lúðvík Geirsson.
Lúðvík Geirsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Magnús Orri Schram.
Magnús Orri Schram. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert