Breyttur stuðningur vegna húsnæðisins

Ljóst er að umtalsverðar breytingar verða á stuðningi hins opinbera við heimilin vegna húsnæðiskostnaðar á næsta ári. Gefið er til kynna í fjárlagafrumvarpi næsta árs að stigið verði fyrsta skrefið í átt að nýju húsnæðisbótakerfi í samræmi við tillögur starfshóps sem skilaði tillögum sínum í maí sl. Það er þó ekki útfært nánar í frumvarpinu að öðru leyti en því að boðað er að veittur verði einn milljarður í tengslum við nýjar húsnæðisbætur. Hópurinn lagði til að teknar yrðu upp húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta, þar sem stuðningur miðist við fjölskyldustærð.

Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins er þó tekið fram að þetta krefjist tæknilegs undirbúnings og verði ekki komið á með skjótum hætti. Á meðan sé því áformað að greiða út vaxtabætur árið 2013 með líku sniði og verið hefur. Þær hafa farið lækkandi að undanförnu.

Fulltrúar í starfshópnum af hálfu samtaka á vinnumarkaði sem rætt var við segjast ekki hafa átt neinn þátt í undirbúningi breytinganna frá því að hópurinn skilaði tillögum sínum í vor og erfitt sé að lesa úr fjárlagafrumvarpinu hvaða áfangabreytingar verða gerðar á næsta ári en flest bendi til að megináherslan verði lögð á stuðninginn við leigjendur, enda sé það í samræmi við tillögurnar.

Tímabundið framlag til sérstakra vaxtaniðurgreiðslna vegna húsnæðislána fellur niður á næsta ári enda áttu þessar niðurgreiðslur eingöngu að standa yfir í tvö ár. Hér er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða. Alls fengu 97.301 sérstaka vaxtaniðurgreiðslu við álagningu skattsins í sumar, sem nam þá 5,7 milljörðum.

Veita á rúma 12 milljarða í vaxtabætur og vaxtaniðurgreiðslur á næsta ári samanborið við 17,3 á þessu ári. Vaxtabætur sem eru tekjutengdar hafa dregist saman að undanförnu, bæði vegna þess að vaxtagjöld hafa minnkað og tekjur fólks aukist og farið upp fyrir tekjumörkin. Þörfin fyrir aðstoð við að koma sér upp húsnæði er þó mikil og einn viðmælandi sem rætt var við fullyrðir að sennilega hafi sjaldan verið erfiðara fyrir fólk að leggja upp í þá vegferð að eignast sína fyrstu íbúð en í dag, ekki síst vegna þess hversu þrengt hefur að á lánamarkaðinum. T.a.m. hefur verið tekið fyrir lánsveðin sem auðvelduðu mörgum að fjármagna sín fyrstu kaup o.s.frv.

Gunnar Axel Axelsson, aðstoðarmaður velferðarráðherra, segir að fyrirhugaðar breytingar verði nánar útfærðar á milli fyrstu og annarrar umræðu um fjárlagafrumvarpið. Stefnt sé að því að við innleiðingu þessara breytinga verði byrjað á málefnum leigjenda og á stuðningurinn að ná til fleiri sem eru á leigumarkaðinum en gert er í dag. Gunnar á von á að niðurstaðan með tillögunum liggi fljótlega fyrir.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði við fjárlagaumræðuna á Alþingi sl. fimmtudag að við útfærslur þessa þyrfti samkomulag við sveitarfélögin. Ekki væri rætt um að hækka húsaleigubætur á kostnað vaxtabóta í fyrstu skrefum heldur myndu menn halda vaxtabótunum en reynt yrði að stíga fyrstu skrefin. Í frumvarpinu er talað um einn milljarð vegna innleiðingar þessara breytingar en í máli Guðbjarts kom fram að menn væru að tala um allt að 800 milljónum eða þar um bil, sem gæti komið inn til þess að styrkja húsaleigumarkaðinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert