Tæp 5% unglinga með tölvufíkn

Guðlaug M. Júlíusdóttir, félagsráðgjafi hjá BUGL.
Guðlaug M. Júlíusdóttir, félagsráðgjafi hjá BUGL.

4,6 - 4,7% unglinga eru með einkenni tölvufíknar, 6-15% af almenningi  og 13-18,4% háskólastúdenta. Tölvufíkn geta fylgt ýmis líkamleg einkenni, t.d. mígreni, svokallaður tölvutitringur, eða Cybershakes og verkir í höndum og útlimum. Þetta sýna alþjóðlegar rannsóknir.

Tölvufíkn er ekki til sem sjúkdómsgreining innan greiningarkerfa. En þrátt fyrir það er hún engu að síður til staðar og verið er að útbúta meðferðarplan við henni hjá BUGL, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans.

Þetta segir Guðlaug M. Júlíusdóttir, félagsráðgjafi hjá BUGL, sem hefur haft til meðferðar fjölda barna og unglinga sem eru með tölvufíkn. Hún hélt erindi í morgun á fundi á vegum Samtakanna Náum áttum þar sem tölvunotkun unglinga var umfjöllunarefnið. Erindi Guðlaugar bar nafnið Valdamiklar tölvur - hver ræður heima.

Kvíðastillandi lyf vegna tölvufíknar

Guðlaug sagði að lyfjameðferð virkaði fyrir tiltekinn hóp, ásamt öðrum tegundum meðferðar. Stundum þyrftu börn og unglingar að fá kvíðastillandi lyf vegna tölvufiknar.

„Helstu einkenni áhugaleysi um heilsu, sinnuleysi um hreinlæti, ósannsögli um tíma sem varið er í tölvu, árátta sem beinist að tölvu sem veldur því að viðkomandi sinnir ekki persónulegum samböndum,“ sagði Guðlaug.

Fjölskyldan verður undirlögð

„Þegar fjölskyldumeðlimir fara að hafa áhyggjur af tölvunotkun barns gerist það að fjölskyldan verður undirlögð. Átök eiga sér stað þegar foreldrar taka til sinna ráða, eins og t.d. að slökkva á routernum og fjarlægja snúrur. Tölvan er notuð bæði sem umbun og refsing og þar með lendir tölvan í miðju vítahrings sem erfitt getur reynst að rjúfa. Sá sem vill vera í tölvunni sér þetta aftur á móti ekki sem vandamál og beitir ýmsum vörnum við,“ sagði Guðlaug.

Hún sagði að samskipti barna og foreldra, þegar reynt hefur verið að takast á við tölvufíkn, oft vera orðin mjög neikvæð. 

Guðlaug sagði að mörg þeirra yngri barna, sem eru með tölvufíkn, hafi alla tíð átt erfitt með samskipti og tölvunotkun breyti þar litlu um.

Erfitt að komast hjá því að nota tölvur

„Það er erfitt fyrir einstaklinga að sleppa allri umgengni við tölvur, ekki síst þar sem kennsla í skólum er farin að fara fram í tölvum. En foreldrar verða að vera vakandi frá fyrsta degi, sérstaklega ef börnin eiga í erfiðleikum með samskipti. Það ætti að vera miði utan á leikjatölvum, eins og er framan á sígarettupökkum,“ sagði Guðlaug.

Náum áttum er samstarfshópur um fræðslu- og forvarnamál og eiga fjölmargar stofnanir aðild að hópnum, þeirra á meðal Embætti landlæknis, Barnaverndarstofa, Reykjavíkurborg og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.

Frá fundi á vegum Samtakanna Náum áttum þar sem tölvunotkun …
Frá fundi á vegum Samtakanna Náum áttum þar sem tölvunotkun unglinga var umfjöllunarefnið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert