Stofna ný hagsmunasamtök í vikunni

Bæjarstjórn Ísafjarðar býðst að vera með í stofnun nýrra samtaka …
Bæjarstjórn Ísafjarðar býðst að vera með í stofnun nýrra samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem stofnuð verða í næstu viku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ísafjarðarbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem koma til greina sem meðlimir í fyrirhuguðum samtökum sjávarútvegssveitarfélaga. Bæjarstjórar í Dalvíkurbyggð, Snæfellsbæ, Vestmannaeyjum, Grindavík og Fjallabyggð standa að baki hugmyndinni, en fyrirmyndin að samtökunum er Samtök orkusveitarfélaga og tilefnið þær breytingar sem verið er að gera á umgjörð sjávarútvegsins. Þetta kemur fram í frétt á Bæjarins besta í dag.

Þar segir að bæjarstjórar umræddra sveitarfélaga telji gagnlegt að fulltrúar fólksins í þeim sveitarfélögum sem hafi mestra hagsmuna að gæta stilli saman strengi í þeim tilgangi að hafa áhrif á framgang mála.

Stofnfundur samtakanna er áætlaður 26. september næstkomandi. Í fundarboði bæjarstjóranna segir að stofnun samtakanna geti verið gagnleg til að auka öryggi fólksins í sjávarbyggðunum meðal annars með því að fá réttmæta hlutdeild í því veiðigjaldi sem tekið sé af útgerðinni.

Búist er við því að fulltrúi Ísafjarðarbæjar mæti á stofnfundinn, en bæjarstjórarnir vonast til þess að öflug samtök geti orðið til sem hafi áhrif á það hvernig umgjörð sjávarútvegsins verður, með hagsmuni íbúa sjávarútvegssveitarfélaganna að leiðarljósi. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur endanlega ákvörðun um hvort vilji sé fyrir þátttöku í umræddu verkefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert