ASÍ mun álykta um Evrópumálin

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ lagði til að lögð yrðu fram …
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ lagði til að lögð yrðu fram drög að ályktunum um kjaramál og Evrópumál á þingi ASÍ. mbl.is/RAX

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti á fundi sínum í dag að leggja fram drög að ályktunum um kjaramál og Evrópumál fyrir 40. þing ASÍ sem fram fer í næstu viku. Þetta er gert að tillögu Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ, svo þingið geti tekið afstöðu til málanna.

Í drögum miðstjórnar að ályktun um Ísland og ESB segir að Alþýðusambandið telji mikilvægt að ljúka viðræðunum um aðild, með það að markmiði að ná eins hagstæðum samningum og unnt er. Það verði síðan íslenska þjóðin sem taki afstöðu til samningsniðurstöðunnar og aðildar að ESB í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. 

„ASÍ hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort hagsmunum Íslands og íslensks launafólks sé best borgið með aðild að ESB eða ekki en hefur skýra sýn á hvaða markmiðum þurfi á ná í aðildarviðræðunum til þess að hægt verði að leggja endanlegt mat á kosti og galla fullrar aðildar,“ segir í drögunum. 

Áhyggjur af þróun kjaramála

Í drögum að ályktum ASÍ um kjaramál lýsir Alþýðusambandið miklum áhyggjum með þróun kjara- og atvinnumála og þá óvissu sem framundan sé. Ljóst sé að almennar launahækkanir hafi ekki haldið í við verðbólgu. Veik staða krónunnar og mikil verðbólga valdi því að nú stefni í að forsendur kjarasamninganna bresti. 

„Þar er ekki síst að sakast við fyrirtækin í landinu og opinbera aðila sem velt hafa auknum kostnaði út í verðlagið. Fyrir launafólk eru afleiðingarnar hærra verð á nauðsynjum, vöru og þjónustu, hærri vextir og auknar skuldir heimilanna í landinu,“ segir í drögum að ályktun ASÍ. 

Gert er ráð fyrir því í drögunum að þing ASÍ muni krefjast þess af stjórnvöldum og atvinnurekendum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að ná niður verðbólgunni og að ríkisstjórnin standi við fyrirheit sín í atvinnu- og félagsmálum. „Staðan er grafalvarleg því bresti forsendur verða kjarasamningar í uppnámi og þá getur komið til átaka á vinnumarkaði í byrjun næsta árs.“

Þingið hvetur samninganefnd ASÍ og aðildarsamtökin til að eiga samstarf og samvinnu við endurskoðun kjarasamninganna í janúar 2013 því nú muni reyna á samstöðu launafólks um að ná markmiðum kjarasamninga um stöðugleika, vaxandi kaupmátt, jöfnun kjara og fjölgun starfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert