Fundu bílinn í Jökulsárlóni

Bifreiðin var dregin á land í dag. Mynd frá lögreglunni.
Bifreiðin var dregin á land í dag. Mynd frá lögreglunni.

Björgunarfélag Hornafjarðar hefur fundið bifreið sem hafnaði ofan í Jökulsárlóni fyrir um einn og hálfri viku. Búið er að sækja bílinn, sem fannst með aðstoð fjölgeisla dýptarmælis, að sögn lögreglunnar á Höfn í Hornafirði. Hann er gjörónýtur.

Um er að ræða bílaleigubíl sem rann stjórnlaust ofan í lónið 30. september sl., en erlend kona var með hann á leigu. Í upphafi voru menn ekki mjög bjartsýnir á að geta fundið bílinn, enda mikill straumþungi í lóninu.

Lögreglan segir að bíllinn hafi ekki farið mjög langt en hann fannst á kafi skammt vestan við brúna sem liggur yfir Jökulsárlón. Með aðstoð kafara var hann sóttur í vota gröf nú á tólfta  tímanum.

Ekki liggur fyrir á hversu miklu dýpi bíllinn var en hann er mjög illa leikinn eftir að hafa verið ofan í lóninu. Lögreglan segir greinilegt að jakar hafi lamið á honum og voru t.d. allar rúður brotnar.

Farangur konunnar var í bifreiðinni þegar hún rann ofan í lónið og segir lögregla að hann hafi ekki fundist.

Búið er að tilkynna fyrirtækinu sem á bílinn um fundinn. Lögreglan segir að nú sé lítið annað að gera en að senda bifreiðina í „endurvinnslu“.

Flaut eins og korktappi í lóninu

Hér gefur að líta nákvæma staðsetningu bílsins sem fannst með …
Hér gefur að líta nákvæma staðsetningu bílsins sem fannst með aðstoð fjölgeisla dýptarmælis sem björgunarsveitin fékk að láni.
Hér sést bíllinn skömmu eftir að hann hafnaði í Jökulsárlóni.
Hér sést bíllinn skömmu eftir að hann hafnaði í Jökulsárlóni. Ljósmynd/Anne Steinbrenner
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert