117.589.232 krónur fyrir landsdóm

Landsdómur gengur í sal Þjóðmenningarhússins.
Landsdómur gengur í sal Þjóðmenningarhússins. mbl.is/Golli

Kostnaður íslenska ríkisins við landsdómsmálaferlin gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, nam 117.589.232 krónum, þegar frá er talinn kostnaður við embætti saksóknara Alþingis. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrispurn þingmanns Sjálfstæðisflokks.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra út í kostnaðinn. Í fyrsta lagi kostnað við dómstólinn sjálfan, annars vegar við embætti saksóknara Alþingis og í þriðja lagi málsvarnarlaun og annan kostnað verjenda sem landsdómur dæmdi ríkið til að greiða.

Innanríkisráðherra svaraði ekki til um kostnað vegna embættis saksóknara Alþingis og benti þingmanninum á að þær upplýsingar væri að finna hjá Alþingi.

Kostnaður við dómstólinn sjálfan nam hins vegar 12.826.606 kr. á árinu 2011 og 79.543.196 kr. á árinu 2012. Stærsti einstaki kostnaðarliðurinn er laun annarra starfsmanna en þau námu rúmum 47 milljónum á árinu 2012. Launakostnaður dómenda á sama tíma nam um 23 milljónum króna.

Að auki var ríkið dæmt til að greiða 25.219.430 kr. í málsvarnarlaun og annan kostnað verjenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert