Alvarleg atlaga að Ríkisendurskoðun

Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson mbl.is/Jón Pétur

„Alvarleg atlaga er nú gerð að Ríkisendurskoðun,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. „Sú atlaga beinist ekki bara að stofnuninni. Þetta er í rauninni ekki síður atlaga og hrein aðför að Alþingi.“

Einar K. skrifar pistil um málið á vefsvæði sitt. Þar segir hann að með atlögunni sé ekki aðeins verið að veikja Ríkisendurskoðun heldur einnig stöðu Alþingis.

„Þetta er mjög alvarlegt mál því með þessu er komið í veg fyrir að Ríkisendurskoðun geti sinnt eðlilega sínu lögbundna hlutverki. Og makalaust er að það skuli einmitt vera þingmenn, - fólkið sem lögin setur, - sem beiti sér í raun gegn því að Ríkisendurskoðun geti sinnt því hlutverki sem henni er ætla að sinna, samkvæmt lögum sem Alþingi setur,“ segir Einar.

Hann segir að þegar heildarsamhengið sé skoðað sjáist að verið sé „að slá skjaldborg um framkvæmdavaldið, ráðaherraræðið og ofríkið. Ríkisendurskoðun er orðin að einhverjum blóraböggli og leiksoppi, í tafli stjórnarherranna“. Hann veltir því svo fyrir sér hvort næsta „fórnarlamb“ verði umboðsmaður Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert