„Stóð ekki á sama í stóra skjálftanum“

Jarðskjálftarnir hafa fundist mjög vel á Siglufirði.
Jarðskjálftarnir hafa fundist mjög vel á Siglufirði. mbl.is/Einar Falur

„Mér stóð ekki á sama þegar stóri skjálftinn kom í nótt og hlutir fóru að hrynja úr hillum hjá mér,“ segir Margrét Þórðardóttir, íbúi við Háveg á Siglufirði. Hún segist hafa klætt sig í nótt og verið tilbúin að flýja húsið.

Mörg hundruð skjálftar hafa orðið úti fyrir Norðurlandi frá því í gærkvöldi og sá stærsti var 5,2 stig. Sá varð kl. 1.25 í nótt.

„Það byrjaði allt að skjálfa rétt fyrir miðnættið og ég fann verulega fyrir því, það var eins og það hefði verið keyrt á húsið hjá mér,“ segir Margrét sem býr uppi í fjallshlíðinni í Siglufirði. „En svo kom stóri skjálftinn um hálftvö og þá fóru hlutir hér úr hillum og út á gólf. Ég lá í rúminu og hugsaði: Hvað er eiginlega að gerast? Mér var mjög brugðið og mér stóð ekki á sama þegar þessi stóri skjálfti kom. Ég heyrði þegar hlutir fóru að detta úr hillum, klæddi mig og var tilbúin að hlaupa út.“

Margrét segir að dregið hafi úr skjálftunum eftir það, í það minnsta hafi hún ekki fundið fyrir miklu og náð að sofna.

Enginn slasaðist

 Engar tilkynningar hafa borist um slys á fólki eða tjón á eignum vegna jarðskjálftahrinunnar. Skjálftarnir eiga upptök sín um 20 km norður af Siglufirði. Skjálftarnir eru svokallaðir brotaskjálftar og eru ekki undanfari eldsumbrota.

Hrinan hófst skömmu fyrir miðnætti og nokkur hundruð skjálftar hafa mælst. Þessi jarðskjálftahrina er framhald hrinu sem byrjaði í september, að því er fram kemur í upplýsingum almannavarna.

Jarðskjálftar á þessu svæði eru nokkuð algengir og árin 1996 og 2004 urðu svipaðar jarðskjálftahrinur.  Ekki er hægt að segja fyrir um hversu lengi þessi hrina mun standa yfir né er hægt að útiloka fleiri skjálfta af stærðinni 4 eða hærri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert