„Loksins komið að erfiðu köflunum“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Fyrst Evrópusambandið er búið að opna á þetta núna tel ég að við eigum að gera þá kröfu á móti að taka þetta allt í einum pakka þannig að við getum samræmt orðalag og kröfur okkar í þessum erfiðu köflum,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins en tilefnið var að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, gekk í þingsalinn.

Vísaði hún til tilkynningar frá utanríkisráðuneytinu í gær þess efnis að Evrópusambandið hefði lýst því yfir að það væri nú reiðubúið að hefja viðræður við Ísland um kafla 3 og 4 í viðræðunum um aðild Íslands að sambandinu en umræddir kaflar fjalla um annars vegar um staðfesturétt og þjónustufrelsi og hins vegar um frjálsa fjármagnsflutninga en þeir tengjast meðal annars möguleikum erlendra aðila á að eignast ráðandi hlut í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

„Loksins er þá komið að hinum svokölluðu erfiðu köflum í þessum viðræðum,“ sagði Ragnheiður ennfremur og uppskar þá frammíkall frá Össuri á þann veg að það væri löngu komið að þeim. „Það er ekki löngu komið að þeim hæstvirtur utanríkisráðherra eins og ráðherrann veit vel sjálfur,“ sagði hún þá og benti á að verið væri meðal annars að takast á um samningsmarkmið í 12. kafla viðræðnanna um matvælaöryggi og innflutning lifandi dýra í utanríkismálanefnd þingsins.

„Það hefur komið í ljós í vinnunni í nefndinni sem blasir við að kaflarnir um matvælaöryggi og landbúnaðinn eru náskyldir. Nú erum við að takast á um orðalag, hversu hart við eigum að ganga fram í orðalagi til að krefjast þess sem meðal annars kemur fram í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar,“ sagði Ragnheiður og vísaði þar til álits nefndarinnar sem fylgdi umsókninni um aðild að Evrópusambandinu 2009.

Sagði Ragnheiður tekist á um það hvort gera ætti ófrávíkjanlega kröfu meðal annars um það hvort heimila ætti innflutning lifandi dýra eða ekki. „Það sem ég hef áhyggjur af ef við gefum eftir í orðalagi í þessum kafla er hvað verður þá og hvaða fordæmi það skapar fyrir hina erfiðu kaflana, landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann,“ sagði hún ennfremur.

Mbl.is fjallaði í fréttaskýringu um helgina um aðildarumsóknina og innflutning á lifandi dýrum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert