„Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál“

Rannveig Ásgeirsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs og fulltrúi Y-lista Kópavogsbúa í …
Rannveig Ásgeirsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs og fulltrúi Y-lista Kópavogsbúa í bæjarstjórn ásamt Ármanni K. Ólafssyni, bæjarstjóra. mbl.is/Ómar

„Ég tel að það þurfi að koma til fjölþættar aðgerðir með aðkomu ríkisins, sveitarfélaganna, menntastofnana og atvinnulífsins til þess að skapa langtímalausn í þessum efnum,“ segir Rannveig Ásgeirsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, í samtali við mbl.is en fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu ásamt Árborg og Reykjanesbæ funduðu 15. október um þann kostnað sem fyrir liggur að muni lenda á sveitarfélögum ef réttur til atvinnuleysisbóta verður ekki framlengdur og til hvaða ráða menn telja að þurfi að grípa.

Fyrir liggur að mörg þúsund manns munu missa rétt sinn til atvinnuleysisbóta um áramótin þegar fjögurra ára bótaréttur þeirra rennur út en þá mun stærstur hluti þess fólks þurfa að leita til sveitarfélaganna eftir fjárhagsaðstoð. Sveitarfélögin hafa óskað eftir því að rétturinn verði framlengdur um eitt ár en stjórnvöld hafa hins vegar sagt að það verði ekki gert.

Vilja að bótatímabilið verði framlengt

„Það hafa ekki verið gerðar neinar sættir hvorki í fjármálageiranum eða sköpuð langtímastörf eins og átti að gera á þessu kjörtímabili og það eina sem hefur verið unnið með eru skammtímalausnir. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál,“ segir Rannveig. Fundur fulltrúa sveitarfélaganna hafi verið haldinn í kjölfar fundar í velferðarráðuneytinu nýverið þar sem tilkynnt var að réttur til atvinnuleysisbóta yrði ekki framlengdur.

„Við héldum að á þessum fundi í ráðuneytinu væri ætlunin að kynna lausnir á þessum málum en þar var okkur aðeins tilkynnt að búið væri að taka þessa ákvörðun,“ segir Rannveig og bendir jafnframt á þá staðreynd að fjölmargir hafi engin úrræði þegar bótaréttur fellur niður og geti ekki einu sinni leitað til sveitarfélaga þar sem þeir uppfylla ekki skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð. Þá lækki ráðstöfunartekjur þeirra heimila um ríflega 140.000 krónur á mánuði. Ekki sé ljóst hvernig þeim heimilum reiði af í samskiptum við fjármálastofnanir eða fari að því að greiða lán og fæða fjölskyldur sínar.

Samstillt átak allra aðila eina lausnin

„Eina lausnin í þessum efnum að mínu mati er að við fáum framlengingu á bótatímabilinu og á þeim tíma skuldbindi ríkið, sveitarfélögin, atvinnulífið og menntalífið sig til þess að móta framtíðarsýn og vinna að lausnum. Ríkið þarf að taka þessari áskorun og vinna með okkur en ekki gegn, og í raun ótrúlegt að menn skuli ekki hafa kallað til sáttar um slíka vinnu mun fyrr,“ segir Rannveig.

Lausnin sé að skapa varanleg störf sem beðið hefur verið eftir lengi, endurskoða tryggingagjaldið og gera þeim sem verið hafi á atvinnuleysisbótum, einkum þeim sem þurft hafi að þiggja bætur lengi, kleift að vinna í sínum málum. „Það þarf e.t.v. að finna nýjar lausnir í mennta- og starfsþjálfunarmálum með aðkomu menntastofnana á fleiri en einu skólastigi og atvinnulífinu svo fólk geti komist aftur út í lífið og í atvinnu við hæfi,“ segir Rannveig að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert