Kíghósti meðal ungra barna

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Það sem af er árinu 2012 hafa tæplega 10 einstaklingar greinst með kíghósta á Íslandi miðað við ekkert tilfelli á árinu 2011. Flestir einstaklinganna eru börn yngri en 5 mánaða og því ekki fullbólusett og nokkur þeirra þurftu á innlögn á sjúkrahús að halda.

Sóttvarnalæknir vill minna á að kíghósti er fyrst og fremst alvarlegur sjúkdómur hjá börnum á fyrstu mánuðum ævinnar en getur valdið langvarandi hósta hjá eldri einstaklingum, að því er segir á vef Landlæknis.

Bólusetning gegn kíghósta er frábrugðin öllum öðrum bólusetningum á þann veg að verndin endist einungis í um 10 ár og bólusetningin útrýmir ekki bakteríunni úr samfélaginu. Kíghósti verður því viðvarandi í samfélaginu og eldri einstaklingar með kíghósta geta sýkt ung börn.

Mælt með bólusetningu

Almenn bólusetning barna gegn kíghósta hefur nánast útrýmt alvarlegum kíghósta hjá ungum börnum en mun aldrei geta komið algjörlega í veg fyrir sýkingu hjá óbólusettum börnum.

Besta ráðið til að forða ungum börnum frá kíghósta er með almennri bólusetningu en á Íslandi eru börn bólusett 3, 5 og 12 mánaða gömul og svo aftur þegar þau eru 4 og 14 ára gömul.

Á þessari stundu er ekki mælt með neinum sérstökum almennum aðgerðum hér á landi en foreldrar eru hvattir til að láta bólusetja börn sín samkvæmt núgildandi skema.

Ekki er mælt með almennri bólusetningu fullorðinna en sóttvarnalæknir hefur mælt með kíghóstabólusetningu hjá þeim sem þurfa endurbólusetningu gegn barnaveiki og stífkrampa og einnig hjá heilbrigðisstarfsmönnum.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert